mánudagur, 7. janúar 2008

Nú árið er liðið....

Gleðilegt ár þið öll þarna úti, og takk fyrir samskiptin á liðnu ári. Á nýju ári er gjarnan litið yfir farinn veg og er ég bara nokkuð ánægð með hann, en nýja árið mitt ætlar að byrja brösulega. Búin að fljúga suður til borgarinnar í brjáluðu veðri, reyna tvisvar lendingu á Hornafirði í bakaleið, en frá að snúa. Ljóti rúnturinn þar. Það er sem ég segi og skrifa: vetrarferðir eru ekki fyrir mig, hvorki akandi eða fljúgandi. Fékk óþrifa verk í mitt annað hné, og hef ekki verið göngufær á þessu ári, en eftir sprautumeðferð og fljúgandi hræðslu ætti þetta að fara að koma. Ligg semsagt og les...sem er kannski ekki svo slæmt út af fyrir sig. Bíbí er frá, Frjáls, Útkallið og Hnífur Abrahams, en Arnaldur er í vinnslu og eftir hann er ég að hugsa um Guðna! Vonandi hef ég þó ekki nægan tíma í bráð til að lesa allt sem mig langar til, því mig langar í vinnuna, og hana nú! ---Langar að deila með ykkur einni hrakfarasögu af sjálfri mér---- Fyrir margt löngu bjó ég í London. Eftir 6 vikna dvöl fór ég með "underground" og ætlaði niður í borg, en ég bjó í úthverfi. Hafði aldrei í lest komið, var bara vön Hlíðarvagninum í Reykjavík. Ég fór í mína jómfrúarferð á mesta annatíma, og var lestin troðfull af fólki og hvergi hægt að halda sér í. Mér fannst leiðinlegt að grípa alltaf í fólk mér til stuðnings þegar lestin var að stoppa eða taka af stað. Ósjálfrátt, eins og í Hlíðarvagninum forðum daga rétti ég upp handlegginn og fann handfang. Mikið var ég fegin! Ég varð mjög ánægð með að þurfa nú ekki stuðning af samferðarfólkinu, sérstaklega eftir að ég fann handfangið góða. Smám saman stoppaði lestin með miklum rykkjum, en ég hélt fast!!! Þarf kannski ekki að klára söguna, þetta var neyðarhemillinn og "undergroundið" stoppaði. Allt endaði þó þokkalega en lögreglan bað húsbændur mína að hleypa mér ekki aleinni út í heiminn án þess að kenna mér á hann! Nú hef ég hins vegar lært aðeins á heiminn og á eftir að læra miklu meira, en þetta atvik varð til þess að ég er afar næm á umhverfi mitt og tek litla áhættu. Tók þó þá áhættu að blogga og hefur ekki orðið meint af, en ætla samt ekki að gerast áhættuleikari í íslenskum vetrarferðum. Læt hér staðar numið og sendi hlýjar kveðjur á alla bæi.

9 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég elska þessa sögu, finnst hún tær snilld en finn líka til með ungu óheppnu stelpunni sem varð fyrir því að stoppa allt neðanlestarkerfi Lundúnarborgar:)
Við sendum þér koss á hnén (eigum við samt bara ekki að vera fegin að engin 2-3 ára hnáta sé til staðar núna til þess að hoppa upp í fangið á þér?)luf jú,Svanfríður

Nafnlaus sagði...

Frábær saga - eins gott að þetta var fyrir tíma hryðjuverka í stórborgum. Nú væri eflaust hætt við skelfilegum yfirheyrslum ef útlendingur stöðvaði "underground" Lundúna.

Sé þig samt fyrir mér - frekar neyðarleg staða :)

Og svo að lokum; bestu óskir um skjótan bata ... og gott að þú tókst áhættuna að koma í bloggheima!

Nafnlaus sagði...

takk, nú hló ég!

vona að þér batni fljótt og vel:)

Védís sagði...

Ég segi það sama nú hló ég og það upphátt.
Vona að fóturinn fari að skána.

Nafnlaus sagði...

Hahahhahahhaha...en fyndið.

Óska þér góðs bata Gulla mín. Bölvað ódó er þetta!

Kv,
B

Nafnlaus sagði...

Þetta væri eitthvað sem gæti komið fyrir mig:)

En gleðilegt ár.

Kveðja Inda

Nafnlaus sagði...

Þetta var nú sniðug saga þó hún hafi sennilega ekki verið sniðug þarna um árið !

Vona að þér fari að líða betur.

Kveðja frá Florida-Guðrún

Nafnlaus sagði...

Ég grenja úr hlátri.. hélt að svona neyðarlegheit myndu bara henda mig, en mikið er ég ánægð að fleiri eru óheppnir.. hahahaha..

Vona að þú verðir göngufær sem fyrst..

Kveðjur,
Linda

Nafnlaus sagði...

úbbs.....heldur neyðarlegt atvik, samt svona atvik sem nær einmitt seinna meir að vera súrsæt minning sem ljúft er að kíkja aftur á, alveg viss um að þú manst allt frá A til Ö sem gerðist á þessum degi, í hverju þú varst, lyktin allt...svona minningar verða nefnilega sterkastar, svona þegar þær eru óttablandnar (hjá mér alla vega)
ég vona að hnén þín finni að ég sendi hér mína allra mýkstu strauma og bið fyrir að þú komist á stjá sem allra fyrst..
kveðjur að vestan