þriðjudagur, 5. febrúar 2008

Börn, uppruni og rætur.

Börn eru mikil meistaraverk, þau eru kraftaverk hvernig sem á það er litið. Börnin eru framlenging á okkar lífi og við viljum vernda þau allar götur. Því miður eru ekki allir svo heppnir að eignast börn á þann hátt sem flestir vilja, en í þeirri stöðu eru kostir. Allir eru þeir erfiðir, en fólk gengur þann veg sem þarf, til að eignast barn. Ég tek ofan fyrir því fólki, og hef ærna ástæðu til. Sjálf var ég gefin þriggja mánaða, lenti á flakki í of langan tíma en var svo tekin í langvarandi ást tæpra fimm ára. Mínir "foreldrar" áttu þó börn fyrir en gátu deilt lífi sínu með litlu barni sem öðrum hafðu mistekist að tengjast. Þeim er ég þakklát, ævarandi. Ég hef fylgst með vinum ganga í gegnum barnleysi, og líka fylgst með þeim ættleiða barn. Það barn er orðið fullorðið og hefur ekki veitt foreldrum sínum neitt annað en gleði. Það þarf sterkar tilfinningar og mikla ást að taka að sér lítinn einstakling og koma honum til manns, sama hvaðan hann kemur. Börn eru öll eins, þurfa hlýju og umhyggju. Þau gera engan greinarmun á litarhætti eða uppruna. Þau þurfa bara ást. Núna veit ég af litlum snáða í fjarlægu landi sem er að bíða eftir að komast til mömmu og pabba, og verður ekki langt í að þau sameinist. Ég óska þeim alls hins besta, og vonast til að geta litið þennan sómapilt augum í framtíðinni. Upprunann þurfum við öll að vita,( hvað svo sem við gerum við hann) en ræturnar eru hinsvegar þar sem mamma og pabbi eru. Ræturnar eru það líf sem við höfum lifað. Kannski of djúpt fyrir bloggfærslu, en mér er þá nokk sama kæru vinir. Takið utan um börnin ykkar og segið að þið elskið þau. Þar til.... kær kveðja.

9 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Flott og alltaf gott að skrifa um e-ð sem maður þekkir af eigin raun.
Ég segi mínum kútum alla tíð að ég elski þá og það má líka snúa því við og segja það við foreldrana-ég elska ykkur af öllu hjarta og gleymið því aldrei.
Svanfríður

Nafnlaus sagði...

það er aldrei of mikið af ást í heiminum, nei það er ekki nógu mikið af ást í heiminum.

fínn pistill hjá þér!

Nafnlaus sagði...

"allt er gott sem endar vel" og þú heppin að hafa alist upp í öruggu umhverfi! ég vildi að mamma mín hefði notið þeirra lukku, afi minn og amma skildu er mamma var fjögurra ára (og átti þá þrjú yngri systkini-engin ófrjósemi þar á ferð) öll börnin fóru á "vergang" þar sem hvorugt vildi þeim sinna.....og þannig var mömmu æska, aldrei á sama stað um jól út og suður endalaust!! skil ekki svona afskiptaleysi. ég sé þó suma daga í þreytu minni að ég nenni þessum mömmulátum ekki lengur, en svo sofna ormarnir og maður skilur ekkert í eigin hugsunum fyrr þann daginn.......
bestu kveðjur

Nafnlaus sagði...

Góður pistill Gulla.

Svo sannur!

Kv,
B

Nafnlaus sagði...

Þetta var alveg frábær, einlægur og sannur pistill.
Það er sko alveg á hreinu að börn þurfa væntumþykju og ást hvaðan sem þau koma svo ekki sé talað um ræturnar, sem eru stoðirnar að heilbrigðum og góðum einstaklingi.
Það er ótrúlegt til þess að hugsa að það er til fólk sem getur ekki gefið þessa ást sem barnið þarf til að nærast, en sem betur fer eru möguleikar í stöðunni fyrir þessi börn.
Í mínu tilfelli lít ég þó svo á að þó að blóðmóðirin hafi gefið barnið sitt af sér og afsalað sér öllum rétti, þá sé það gert af einlægri ást en ekki vangetu til að elska það. Ég verð henni að eilífu þakklát fyrir að hafa gefið mér tækifæri til að "eignast" barn og koma því til manns. Ég hreinlega get ekki ímyndað mér hversu erfið sú ákvörðun hefur verið henni.
Ég hlakka alveg ofboðslega til að takast á við komandi hlutverk en hef þurft að klípa í mig nokkrum sinnum til að athuga hvort ég sé ekki örugglega í raunveruleikanum. Draumurinn er alveg að verða að veruleika.

Bestu kveðjur yfir hafið,
Linda

Nafnlaus sagði...

Nokkuð góður pistill hjá þér frænka. Ég vildi óska að móðir mín hefði geta fótað sig eins vel í lífinu eins og þú gerðir, jú hún endaði hjá góðu fólki ...bara of seint og hún náði aldrei fótfestu og sennilega fór sem fór vegna þess.

Ég spara faðmlög til minna drengja aldrei ...enda fæ ég það ríkulega borgað til baka með virðingu og trausti.

Kveðja til ykkar ..

Inda

Nafnlaus sagði...

Góður pistill hjá þér Gulla og skrifaður af miklu innsæi. Ég átti því láni að fagna að byrja minn búskap í sama húsi og sómafólkið sem gaf þér svo mikla ást og öryggi. Þau voru einstök.
Bestu kveðjur,
Þórunn

Syngibjörg sagði...

Maður má aldrei gleyma að þakka gott veganesti og gefa það áfram til sinna barna. Góður pistill og fallegur.
Ég segi nú stundum við minn óþekktarorm að ég kyssi hann bara í klessu ef hann hætti ekki að láta illa. Iðulega fer hann þá að hlæja og biður um að verða kysstur í klessu.

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill! Þesssi snerti við mér. Við þurfum að temja okkur að láta alla ástvini finna sem oftast fyrir því að við elskum þá, ekki síst börnin.

Farðu vel með þig!
... bestu óskir um góðan bata og gott hné.