Bara að láta vita af mér, annað er ekki sæmandi fyrir bloggfrúna. Ég fer minn daglega rúnt um bloggheima og ætlast til nýrra skrifa nokkuð reglulega, en er svo með dratthalahátt sjálf. Lífshlaupið er núna og allir hvattir til að taka þátt í því. Ég hélt að mitt lífshlaup hefði staðið undanfarna hálfa öld og nokkrum árum betur. En fyrst allir eiga að vera með skorast ég ekki undan. Núna er ég til dæmis að eyða orku við að skrifa, það tekur á putta og hugsun. Alla daga príla ég upp margar tröppur í tónlistarskólanum, og niður aftur. Ég eyði sirka 8 klukkutímum á viku með kórum, og þarf að læra mikinn undirleik. Það hlýtur að teljast með í hlaupinu, og í öllu vetrarríkinu eyði ég svo töluverðri orku í að passa mig á að detta ekki á leið minni í bíl og úr. Ég hef aldrei farið í líkamsrækt, eða stundað fjallgöngur og skíði, og aldrei eytt orku í megrunarkúra, þannig að ég á svolítið inni. Ég ætla þó að láta mitt daglega líf duga í átakinu, en hvet náttúrulega alla dyggilega sem skunda á fjöll eða skokka upp í vindinn. Lífshlaup og lífskapphlaup er kannski náskylt, hver veit. --Nú er ég sko farin að telja niður í Ameríkufarana, nákvæmlega 13 dagar! Þrettán dagar í að geta tekið utanum þá, og draumar mínir snúast um þá. Þegar ég var stelpa beið ég eftir að verða stór og beið eftir hinu og þessu, svo óx ég uppúr því að ég hélt. Núna er ég aftur farin að bíða og biðin er jafn óþreyjumikil og hún var í bernsku. En ég kann líka að láta mig hlakka til, því hef ég aldrei gleymt. Ég hlakka til 18.mars, ég hlakka til vorsins, ég hlakka til að fara á Spán í sumar, og ég hlakka til áframhaldandi lífshlaups. Þess vegna tek ég þátt í því. Að endingu þakka ég kommentin frá ykkur og hlakka til að fá fleiri! Þar til næst...... |
miðvikudagur, 5. mars 2008
Og ég tek þátt í því..
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
10 ummæli:
Ég myndi nú slá í þig með hækjunum ef þú færir í megrun:)
Það er einn af þínum betri kostum hversu hrifnæm þú ert og tilhlökkun fylgir því-okkur hlakkar líka til að sjá ykkur og snerta. Mest hlakkar mig til að sjá ykkur með strákunum og fá að syngja með þeim og leika. Yndislegt.lof jú, Svanfríður
Þá hljóta að vera bara 12 dagar í dag, þau verða komin á Hólabrautina áður en þú veist af.
(ég var næstum búin að skrifa Hlíðartún)
Það er yndislegt þegar maður getur látið sig hlakka til einhvers og til þess er leikurinn gerður. Maður getur líka látið sig hlakka til morgundagsisn því að þá gerist eitthvað annað en í gær.... Bestu kveðjur til þín og Bróa og takk fyrir innlitið hjá mér.... Það er notalegt að sjá að þú komir í heimsókn annað slagið... Knús og kossar héðan Svava
ég sárvorkenni fólki sem kann ekki að hlakka til, kann ekki að hrífast. já, það er til svoleiðis fólk.
þú ert greinilega með allt í fína lagi í þessari deild:D
Mikið verður gaman fyrir ykkur að hitta dótturina og barnabörnin. Og ekki verður það minna gott og gaman fyrir þau.
Ég stefni nú að því að líta við með mína grislinga. Það verður gaman að sjást.
Kveðjur frá Eyjólfsstöðum
Ég skil þessa tilhlökkun þína. Ég geymi þennan eiginleika eins og gull. Á miðvikudaginn síðasta hafði æeg ekki tíma til að fara úr úlpunni áður en ég rauk inn í stofu hjá Óskari bróður. Mig þyrsti nefninlega í mömmu og pabba faðmlag sem ég auðvitað fékk. Þetta eldist ekkert af mér. Eykst bara frekar enda hitti ég þau ekki nógu oft. Ég veit að Ameríkufaranir geta ekki beðið eftir Mömmu/pabba/ömmu/afa knúsi. Það er bara ekkert betra en það ;)
bestu kveðjur úr Hafnarfirðinum
Yndislegt...Megið þið faðmast og kyssast út í hið óendanlega.
Knús,
B
Já það er svo gott að geta hlakkað til einhvers og ég skil vel tilhlökkun þína að fá Ameríkufarana í fangið. Ég var einmitt að koma úr eins árs afmæli dótturdóttur minnar í dag og fæ svo íbúðina í Kópavoginum afhenta á morgun - endalaus tilhlökkun.
Það var lítið um tölvunotkun í Tenerifeferðinni því ég kalla það ekki tölvur sem maður var að reyna að pikka á þar og þegr átti að senda bréfkorn þá gat maður bara lagt sig á meðan því það tók svo langan tíma.
Líði þér vel Guðlaug mín,
Já nú styttist biðin óðum, það er svo skemmtilegt að hlakka til, fá fiðrildi í magann við tilhugsunina um að hitta sína nánustu. Njótið samverunnar sem allra best, kveðja úr rigningu (kærkominni) í Portúgal,
Þórunn
Les oft bloggid titt og gaman ad fylgjast med. Skil vel tilhlokkun tina eftir amerikuforunum. bestu kvedjur fra kaliforniu.
Gigja Baldurs
sfo.bloggar.is
Ef tid viljid fylgjast med okkur ta er adgangsordid valhneta
Skrifa ummæli