þriðjudagur, 1. júlí 2008

Sjáiði bara, fínt, fínt.

Eftir mikla málningavinnu (í síðasta pistli) tók ég því rólega því puttarnir þurftu hvíld og olíubað/böð. Spilaði við tvær jarðarfarir svo þá þýddi ekki að ofbjóða sér. Eitt er víst að þegar maður fæðist fylgir dauðinn einhverntímann á göngunni. Hér hafa of margir látist það sem af er ári, og er alltaf erfitt að kveðja vini. Hvert líf er dýrmætt, en í litlu samfélagi þar sem nándin er mikil er tollurinn stór. --- Samt sem áður heldur sólin áfram að skína og lífið gengur sinn vanagang.--- Í dag háþrýstiþvoði ég stéttarnar í garðinum mínum og var hreykin í verklok. Allt svo hreint og fínt, og allur mosi farinn. Náttúrufræðingar hefðu tekið dýfur yfir frekjunni í mér, en ég ákvað að mosinn væri fallegastur úti í þeirri guðsgrænu. Í kvöld æjuðu puttarnir og spurðu hvort ég ætlaði ekki að spila tónleika á fimmtudagskvöldið...úpps...olíubað skal það vera. Eftir fimmtudaginn ætla ég að vera í algjöru fríi frá hljóðfærinu um stund og gera bara nákvæmlega það sem mig langar að gera. En hvað langar mig að gera? Ég ætla að bera fúavörn í 70 metra af timbri, ég ætla að þrífa hvert einasta rósablað í sólskálanum með barnaolíu, ég ætla að reyna að finna Máríerluhreiðrið sem ég held að sé í uppsiglingu í garðinum, (þær voru allavega að gera dodo í dag) ég ætla að búa til sultu og ég ætla að njóta þess að vera á Humarhátíð. Við besti helmingurinn tókum forskot á hátíðina og fórum á Humarhöfnina á laugardagskvöldið og ég held að kokkurinn þar sé galdramaður. Ég á hvítlauk, ég get bakað pizzubotn og ég á humarhala, en ég gæti aldrei gert eins góða pizzu eins og kokkurinn á Höfninni.--- Mæli með þessum stað.--- Eftir kvartettsæfingu í kvöld hóaði ég í bassann og bað hann um að taka fyrir mig eins og tvær myndir...ég á nefnilega ekki "svona vél", bara gamla yndislega. Birtan var svo falleg í kvöld, sólskálinn svo ljómandi og gullregnið í blóma.--- Þannig gerist þetta, og það er bannað að hlæja: Einhver tekur rmyndir og sendir mér þær. Ég áframsendi þær til Svanfríðar bestu dóttur + pistilinn, og hún, þessi elska setur svo punktinn yfir i-ið! Ofureinfalt fyrir góða klaufa eins og mig. Grænu froskastígvélin hans æðsta snúðs taka sig vel út á myndinni og litlu skórnir hans Natta á myndinni eru eins og litla bróður sæmir, fallegastir. Kæru bloggvinir, ég ætla bráðum á Spán en þið fáið örfáa pistla í æð áður. Þar til næst kveð ég undan grænum stígvélum og gullregni.

7 ummæli:

Guðlaug sagði...

Elsku mamma mín, þetta er sko bara fínt fínt og ekkert annað. Okkur Bert þykir vænt um að þú skulir hafa "them shoes" þarna til sýnis því þeir bræður Albertssynir eru því aldrei langt undan.
Mikið ER ég fegin að vera bara hér í mínu bláa húsi núna því hér eru engir 70 metrar af viði sem þarf að fúaverja:) Þú ert ótrúleg. En ég er viss um að stéttin lýtur vel út eftir þvottinn. Farðu vel með þig og við söknum ykkar hér.
Kveðja úr fallegu veðri og rólegheitum,Svanfríður.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst bara magnað að þú hafir fundið leið til að koma myndum inn á bloggið, útséð það er nokkuð ljóst!
Og ég hló alls ekki neitt, ég bið fyrir að mamma og pabbi komi sér á þessa öld og taki netið inn til sín, en ég held að það verði bið á því!

Þú ert svo dugleg, á öllum sviðum!!
bestu kveðjur

Nafnlaus sagði...

Gullregnið er æðislegt og skórnir og froskastigvélin sóma sér vel innan um blómin.
Vonandi finnur þú hreiðrið, það er svo gaman að fylgjast með.

Kveðja Íris Gíslad

Nafnlaus sagði...

maríuerlur eru einhverjir yndislegustu fuglar sem ég þekki, þær eru svo kvikar og flottar í hreyfingum.

og mikið er fallegur gróðurinn í kringum þig:)

Nafnlaus sagði...

Hæ hó... Án þess að vera nokkuð að metast þá eru hérna Máriuerlur í litlu húsi sem að hangir á öðru stóra trénu í garðinum mínum og í hinu er dúfa með ugna. Inni í brenniskúr gerði sér einn hreiður í vor og er nú á burt með unga og her, og svo er enn eitt alveg ofaní nefinu á okkur hérna við efri terössuna. Það er mikið líf og fjör. Sakna samt Patta broddgaltar sem að var hérna í fyrra, hann hefur sennilega farið í göngutúr út á aðalgötu....ææææ... En sólin skín og ég er alltaf að leika mér í garðinum mínum. Skil þig vel að vilja dedúa eitt og annað utanhúss... Bestu kveðjur á Humarhátíð og svo á spán. Svava og Siggi

Nafnlaus sagði...

Góða skemmtun á Humarhátíð. Kem ekki að þessu sinni þar sem ég mun taka þátt í írskum dögum á Akranesi.
En góða ferð til Spánar. Hvíldu þig og njóttu þess að vera til.
Með bestu kv. Elsa Lára sem þarf að fara mála einhverja 50 m2 :) en nenni því alls ekki.

Nafnlaus sagði...

Góða skemmtun á Humarhátíð og á Spáni.
Eru til garðáhugatöflur? Ef svo er endilega láttu mig vita því mín bíður stór garður sem ekkert hefur verið gert fyrir í ein 10-15 ár og ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja:)Ég væri sko alveg til í að vera með jafn græna fingur og þú Gulla mín.
Hafið það gott og njótið lífsins.
kv. Helga Sigurbjörg