sunnudagur, 11. janúar 2009

Úr grárri forneskju?

Ég er sennilega afar gömul og fastheldin. Fastheldin á það sem ég þekki og kann en er smeyk að breyta út af venjunni. Af hverju að skipta út einhverju sem er fyllilega boðlegt, og af hverju að hlaupa eftir öllu sem í boði er? Ekki ætla ég að skipta út bestemann þótt hann sé með grátt hár! Einu sinni voru fótanuddtæki mjög í tísku og allir áttu slíkt tæki. Þegar ég sá kynningu fyrir nokkrum árum á nuddpottum flissaði ég eins og smástelpa. Þar var komið risastórt (fóta)nuddtæki sem allir urðu að eignast. Ég barðist lengi við nota greiðslukort og farsíma, ég tala nú ekki um tölvu. Bestemann vissi sem var að það þurfti smákúnst við að koma mér á bragðið. Honum tókst það og ég get ekki hugsað mér að vera tölvulaus, en hitt er mér nokk sama um. Kann þó takmarkað að nýta mér tölvuna, en það sem ég kann dugir mér.--Allavega í bili---. Fésbókin er nýjasta dæmið um tileinkun okkar duglegu þjóðar að gleypa. Ég veit eiginlega ekki um hvað málið snýst. Eitt veit ég: ég á fullt af vinum sem mér þykir óendanlega vænt um. Þarf semsagt ekki á bókinni góðu að halda enn sem komið er. En í dag las ég grein um eina hefðarkonu rúmlega áttræða sem heldur úti samskiptum á fésbókinni, með myndum og alles! Halló....ég á ekki einu sinni stafræna myndavél. Ég tek hattinn ofan fyrir þessari góðu frú og heiti því að þegar ég verð áttræð skal ég geta þetta. Svei mér þá. Margir hafa sent mér póst og boðið mér að vera vinur á fésbókinni, en ég guggna trekk í trekk. Hef sennilega alveg nóg með að skrifa blogg endrum og sinnum um þankaganga konu í nútímatæknifjötrum! Verum líka vinir í bloggheimum, þar til næst.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég er forfallin á fésbókinni - og finn að sama tíma að það er dræm mæting inn á mína bloggsíðu. eitthvað eru vinirnir farnir að deila sér niður og bloggin virðast verða undir! ég samt finn enn þörf fyrir blogginu mínu sem og vina minna bloggum, verð svekkt þegar ég heimsæki síðurnar dögum saman og finn ekkert nýtt, þessar stuttu setningar á fésbókinni eru ekki það sama og alvöru blogg - svo ég segi með þér "áfram með bloggin"...

Nafnlaus sagði...

Já það má alls ekki gleyma bloggvinum. Verð að viðurkenna að ég hef verið ansi mikið inni á fésbókinni en minna á blogginu. En það mun verða breyting á. Ætla að sinna blogginu og kíkja inn á fésbókina líka en ekki hafa hana sem algjöran tímaþjóf, enda margt annað að gera. Heimili, vinna og bara að njóta þess að vera til.
Jæja, bless þar til næst.
Kær kv. til ykkar hjóna frá mér og mínum.
(Ef þið eigið einhverntíman leið um Akranes þá eruð þið velkomin, og ég þarf auðvitað að kíkja við einhverntíman þegar ég á leið austur, sem er vonandi sem fyrst).
Jæja, góða nótt.
Elsa Lára.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Mér finnst þú standa þig vel og þú tekur hlutina á þínum hraða sem er vel. Maður í raun missir ekki af neinu þó maður sé ekki hér eða þar en ef sá tími kemur og þú ferð á fésið þá gerir þú það á þínum tíma:) Lof jú.

Elísabet sagði...

þá er ég úr enn grárri forneskju en þú mín kæra, því ég er ekki á feisbúkk. nenni því ekki...

Elísabet sagði...

annars skil ég þig kannski ekki rétt - ertu með aðgang að feisbúkk, en notar hann ekki?

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Baun, sko-mig minnir að ég hafi búið til síðu fyrir hana fyrir löngu síðan en sú síða komst eiginlega aldrei í notkun:)

Nafnlaus sagði...

Bestu vináttutengslin eru þessi elstu, alveg aftur úr grárri forneskju ;). Þó tölvan, blogg og fésbók séu ágæt til síns brúks, þá kemst það ekki með tærnar þar sem spjall yfir góðum kaffibolla með góðum vinum hefur hælana, já að ég tali nú ekki um bara samvera við gott og skemmtilegt fólk yfirleitt.
En blogg, fésbók og önnur tölvusamskipti eru ágæt svona með :)

Nafnlaus sagði...

afi hefur ekki glyrnum barið hina marg umtöluðu fjésbók. Enda lítið sinnt tölvumálum uppá síðkastið. Læt gamla tímann duga að sinni.

Védís sagði...

Gleðilegt ár Gulla mín, skilaðu kveðju til Bróa frá mér :)

Nafnlaus sagði...

Ég verð að viðurkenna að ég lét undan þrýstingi og skráði mig á Feisbook, þar hef ég komist í samband við marga ættingja sem ég hef ekki heyrt frá lengi og er ánægð með það. En á hinn bóginn finnst mér þetta óttalegur tímaþjófur og nokkuð vélrænn samskiptamáti þar sem margskonar kveðjur eru tiltækar til að senda án þess að gefa nokkuð af sjálfum sér. En ég er líklga ein af þessum sem koma úr grárri forneskju og vil frekar velja orðin sjálf sem ég sendi vinum mínum.
Svo mörg voru þau orð, kveðja úr kotinu
Þórunn