föstudagur, 30. janúar 2009
Úllen dúllen doff.
Ekki verri titill en hver annar þegar maður æðir úr einu í annað. Nú er enn ein helgin framundan og daginn farið að lengja. Eins og lesendur Ameríkufarans hafa séð eru liðin 4 ár síðan hann flutti á vit nýrra ævintýra. Margan erfiðan daginn hef ég lifað á minni ævi, en brottfarardagur dótturinnar er með þeim erfiðari sem ég hef upplifað. Þegar hún hvarf upp með rennistiganum með litla Eyjólf í poka á maganum varð mér allri lokið. Á dögunum var ég spurð að því hvort hún væri ekkert á heimleið, og þá til frambúðar. Svar mitt var nei: ég væri bara glöð yfir að hún væri ekki á heimleið til langdvalar! Þetta þótti skrítið svar frá móðurinni. Ef svo væri myndi ég missa sjónar á góðum tengdasyni, og strákarnir yrðu af góðum föður. Það er mér mikilvægt að litlu fjölskyldunni líði vel, og litla bláa húsið er þeirra staður. Nú erum við mæðgur farnar að telja niður því á morgun verður keyptur farmiði vestur og þá líður tíminn svo hratt. Hreint eins og þessi fjögur ár sem liðin eru frá flutningi þeirra. Hvert árin fóru sé ég í Eyjólfi og Natta og það er góð tilfinning. ---TR. er næsta mál á yfirreiðinni. Það er meiri asna-stofnunin á margan hátt. Ég fékk loksins í dag endanlegt bréf, svar við 5 bréfum frá mér! Þeirra voru mistökin, ég þarf að standa mína plikt, en TR. segir "sorry" með semingi. ---Um síðustu helgi fór ég á tvö þorrablót. Annað var rólegra en hitt og hentar mér betur, en bæði þrælgóð. Það er mikil menning sem felst í svona skemmtun á stað sem Höfn er. Á "aðalblótinu" eru um 30 hornfirðingar sem sjá um skemmtunina og erum við rík af hæfileikafólki. Annállinn rann í gegn án þess að meiða nokkurn og alveg bráðfyndinn. Heimahljómsveitir héldu svo uppi fjörinu á báðum blótum, og verður einnig svo annaðkvöld. Þá er þriðja blótið á svæðinu, svo Hornfirðingar ættu að vera vel súrsaðir og útpungaðir fram að næsta Þorra. Þessar samkundur minna mig á yndislega upplifun þegar ég var barn í sveit á Vatnsnesi. Þann 17. júní var haldin skemmtun á Hvammstanga sem kölluð var Jósefínu-hátíðin. Formaður kvenfélagsins hét Jósefína. Svo hætti hún sem formaður, en skemmtunin hélt velli og varð að Lárugleði, í höfuðið á nýjum formanni! Þessar menningar- Þorra og bæjarhátíðir eiga að halda velli, þær þjappa fólki saman og veita mikla gleði. Ekki veitir af. Lífið hér er gott og ætla ég að senda góða strauma út um allt þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
7 ummæli:
Í dag þegar ég horfi til baka á brottfaradaginn okkar þá fæ ég hroll en ég fékk hann ekki þá því þetta var e-ð sem var ákveðið og skyldi gerast:) En ég held að ég ætti erfitt með að rífa mig upp aftur,allavega eftir svona skamman tíma og kveðja alla aftur. Það er of erfitt til að gera það reglulega:)
Tryggingastofnun ætti að skammast sín og fáránlegt að þau skuli hreinlega komast upp með svona vinnubrögð.
Jósefínuhátíð? Ég hef að ég held aldrei heyrt þig minnast á þetta-sögur af þessu næst þegar við heyrumst/hittumst, takk fyrir takk:)
Góða nótt og góðan laugardag. Svanfríður og strákarnir, einn af þeim sem ekki vildi vera hundur!
já það er margt á foreldrana lagt - og ef maður hefði skilið álagið sem á þau var lagt, á þeim tíma sem maður var að drekkja foreldrunum í áhyggjum - hefði maður líklega ekki tekist á við þessi stórævintýri... (ég skildi þá ekki mikið í foreldrum mínum, að vera áhyggjufull gagnvart mínum flutningum til manns er þau höfðu aldrei hitt og ég þekkt skemur en kallinn í þurrhreinsuninni). en svo fullorðnast maður og öðlast endalausa virðingu fyrir ykkur, kæru foreldrum - sem í ást ykkar leyfið okkur að brjóta skurnina og taka á flugið, þó áhættusamt sé á að líta! ég tek ofan fyrir styrk ykkar, og vona að ég í framtíðinni taki ykkur til fyrirmyndar...
bestu kveðjur
mmm...þorramatur;)
Ég verð að játa að ég sakna þorramatarins. Það var gott að TR dæmið endaði vel og þið gátuð haft gaman af þorrablótunum. Að kveðja börnin sín á leið út í heim þekki ég vel, sama hvað börnin verða stór, móðurhjartað er ávalt hjá þeim.
Bestu kveðjur úr rigningar-kotinu, Þórunn
Ég hugsa oft um það hvað ég er ofdekruð að hafa börn og barnabörn svona nálægt mér og oft hugsa ég nú til þín Guðlaug mín. Nú er hinsvegar tími til að gleðjast þegar flugmiðarnir eru keyptir og eintóm tilhlökkun framundan.
Kær kveðja,
Margt er mannanna bölið. En blessaður súrmaturinn læknar öll sár. Svo ekki sé talað um, ef farmiði fylgir með. Kveðja afi.
Elsku Gulla mín, ég rakst á "comment" frá þér á einni af bloggsíðunum mínum. Ég á svo margar bloggsíður og heimasíður að ég kemst ekki yfir að fylgja þeim öllum eftir, til viðbótar tölvupósti og "fésbók" !!! hehe
En þú sagðist þurfa að heyra í mér ... svo hérna er ég núna :) En ef þú vilt hringja er síminn: 699 1886.
Bestustu kveðjur,
Gróa
Skrifa ummæli