sunnudagur, 18. janúar 2009

TR = KLÚÐUR.

Það þarf töluvert til að gera mig reiða, en nú er ég reið og ætla að beina henni beint til lesenda. Ekki að þeim, nota bene. Samkvæmt læknisfræðilegri greiningu er ég 100% öryrki, en ég get sem betur fer unnið og skilað mínu til samfélagsins. Tryggingastofnun Ríkisins þarf því ekki að borga mér laun, ég vinn fyrir þeim sjálf, en bensínstyrk fæ ég greiddan mánaðarlega frá TR. Kr. 6.ooo. Þá er náttúrulega búið að taka skattinn. Gott mál og ekki mikið reikningsdæmi. Svona hefur þetta verið í áraraðir, og engin launabreyting er hjá mér umfram aðra í hinu "venjulega" launaumhverfi. Fyrir ári síðan fékk ég bréf frá TR. þar sem sagði að ég fyrir misreikning þeirra skuldaði 68.000 krónur. Ég varð æf og eftir mikið japl jaml og fuður fengust þeir til að hætta að greiða mér bensínstyrk þar til skuldin væri greidd, en það gekk ekki átakalaust fyrir sig. Fyrr í þessari viku kom svo annað bréf: Nú skulda ég kr. 29.000. Þá gekk yfir mig og sendi þessum reikningshausum tölvupóst þar sem ég krafðist skýringa. Daginn eftir kom staðlað bréf þar sem sagði að þetta væri skuld síðan 2005! Ekkert meir. Þá lagðist ég aftur í skriftir, og krafðist skýringa.....hvað var ég að borga í fyrra.....hver er ekki að vinna vinnuna sína? Þarf náttúrulega ekki að taka það fram að ég hef ekkert svar fengið, og mun sennilega ekki fá því þeir hjá TR kunna bara að senda rukkanir og stöðluð svör. Ég er jafndauð fyrir 29.000 krónurnar, en ég ætla ekki að borga þegjandi og hljóðalaust.(tek það fram að allir mínir pappírar eru í lagi) Ef ég skulda einhverjum vil ég vita af hverju, ef TR kann ekki að reikna þá er það ekki mitt mál. Það versta er að svona stofnun vinnur alltaf, og ég veit að svona rukkun barst ekki eingöngu til mín. Fari þeir og veri ásamt fleirum sem kunna ekki að vinna vinnuna sína. Svo mikið er víst að ég héldi ekki minni vinnu með svona slugsaragang. ---En ég er ekki séra Jón.--- Jæja, þá er ég búin að pústa, en þrátt fyrir það er ég ennþá örg, og ekki skánaði ergelsið við að horfa á fréttirnar í kvöld. Þar heyrði ég að ALLIR vissu um hrunið í bankakerfinu, og það fyrir löngu. Ég ætla að nota ljótt orð sem hefði verið bannað í mínum uppvexti: skítapakk. Þar hafið þið það kæru bloggvinir, ég er ekki alltaf eins kurteis og ég "lít" út fyrir að vera. Þar til næst.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

heyrðu, bara helvítis fokking fokk á þetta pakk hjá tryggingarstofnun!
(ég er löngu hætt að spara blótin fyrir einrúmið...)

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég vissi að þau væru hæg og treg í taumi en þetta gefur út fyrir allan þjófabálk. Svei þeim. Ekki gefast upp á að ná þínu framgengt-kannski bara að skrifa í Moggann eða e-ð?

Védís sagði...

Alveg ótrúlegt hvað þessar stofnanir geta komist upp með, og oft vegna þess að við nennum ekki að eiga við þær, enda er það nær ómögulegt oft á tíðum.

En þetta með bankahrunið, ég og þú höfum þá líklega verið þær einu sem komum af fjöllum í haust, því ekki vissi ég af þessu.

Nafnlaus sagði...

Það er lágmark að gefa fólki skýringu og útreikninga á skuldum þeirra. Það getur ekki bara einhver komið og sagt þú skuldar mér þetta án skýringa.
Tryggingastofnun já skrítið bákn, á stundum það er ljóst. Margt þar sem þarf að laga.
Vertu reið og segðu ljótt, í svona tilfellum má það bara........

Nafnlaus sagði...

Ég er nú ekki sammála þeim hér að framan sem vilja meina að það gangi betur að standa á rétti sínum með því að vera orðljótur, því ég held að það skili engu, en kjarnyrta íslensku er sjálfsagt að nota óspart. Ég frétti af tveimur svona málum í síðustu viku þar sem fólkinu var gert að greiða stórar upphæðir til baka til TR. Engin haldbær skýring var gefin. Í öðru tilfellinu var um gamalmenni að ræða sem átti að greiða yfir 200 þúsund til TR. Hann varð bara alveg ringlaður yfir þessu og vissi ekki sitt rjúkandi ráð hvað gera skyldi.
Vitanlega þarf að mótmæla svona afgreiðslu kröftuglega. Hvernig væri að tala við Jóhönnu Sig. er þetta ekki í hennar ráðuneyti?
Með baráttukveðju,

Nafnlaus sagði...

mér finnst að þú eigir að fá skýringu á þessu, hljómar alveg fáránlega að rukka þig bara án þess þú vitir fyrir hvað.

Syngibjörg sagði...

Hver hefur eiginleg alið þetta fólk upp hjá TR????? kann þetta fólk ekki lágmarks kurteisi og mannasiði. Dettur alveg yfir mig!!!
En ekki gefast upp.
Vestfirskar baráttukveðjur til þín mín kæra.

Egga-la sagði...

Held að það séu hlutir á íslandi sem eru bara ekki alveg í lagi og það er meðal annars þessi stofnun sem þú ert að fjalla um. Hef allavegna heyrt ýmsar sögur frá foreldrum fatlaðra barna sem eru eitthvað álíka. Lánasjóðurinn er svo önnur svona stofnun!

Blinda sagði...

Týpískt fyrir ríkisstofnun - rétt eins og skatturinn - ef þeir gera mistök þá er það okkur að kenna.

Stattu á þínu og ekki láta þákomust upp með eitthvað múður.

Nafnlaus sagði...

Skítt. Eða það finnst afa.

Nafnlaus sagði...

Þetta er auðvitað ekki í lagi og ég er þess viss um að þú hefur ekki sagt þitt síðasta í þessu máli. Endilega að fara með þetta á mbl eða annan miðill. Þarna er einhver sem er ekki að vinna sína vinnu eða já, kann ekki að reikna.
Og já, ég er hundfúl yfir öllu sem er í gangi í landinu okkar. Þvílík spilling sem hefur verið hér og er líklega enn. Arg, helvítis fokking fokk.
Kær kv. Elsa Lára.