sunnudagur, 6. september 2009

Hvert fór hún?

Ég hélt mig vera búna að læra að setja inn myndir, en eitthvað hefur klikkað. Ef þið rekist á svona eins og nokkra berjabala á mynd í netheimum þá á ég þá. Saftin úr þessum berjum er sennilega sú flottasta ever, eða þannig.... þetta er sko í fyrsta skipti á ævinni sem við bestimann gerum saft. Hann dreif sig í berjamó í gær og afraksturinn sem svo sannarlega var festur á mynd er einhversstaðar á flakki. Nafna mín, dóttirin Ameríkufarinn er líka á flakki og festi ég samtal okkar á skybinu einnig á mynd. Er ennþá gapandi yfir tækninni, ég við eldhúsborðið mitt en hún í fjallendi miklu í risahúsi í annarri álfu. Andfætlingar hafa verið hér í tæpar tvær vikur, systkini mín sem ég er að kynnast á efri árum. Svolítið skrítið, en allt gekk vel. Það er rétt sem Baun sagði, maður velur sér ekki fjölskyldu. Ég valdi mína ekki, en um fimm ára aldurinn var ég endanlega valin, og það finnst mér gott. Ég var, og hef oft verið spurð hversvegna ég segi að Svanfríður mín heiti í höfuðið á mér, Guðlaugu! Þar sem ég er ekki að segja neitt leyndarmál, og hefur nú þegar komið fram í fjölmiðlum get ég alveg eins látið það flakka hér. Við ættleiðingu var búið að skíra mig Svanfríði Eygló. Misvitrir sem tóku mig fyrst fannst nafnið alls ekki hæfa og með allskonar brögðum breyttu þau því nafninu í Guðlaugu Gunnþóru. Eins og það passi eitthvað betur! Lá því beinast við þegar dóttlan fæddist að gefa henni þetta nafn, og finnst mér hún bera það með prýði. Nú eru haustlitirnir farnir að sjást og nóttin orðin lengri. Fyrsta heila kennsluvikan liðin og sú næsta byrjar á morgun. Kórarnir týnast svo inn hver af öðrum og líður með vel með þetta allt. Það eina sem er að "bögga" mig núna er að vera búin að týna helv....berjabölunum! Þar til næst.

10 ummæli:

Egga-la sagði...

Ekki vissi ég þetta, fylgist greinilega ekki með. En mér finnst nú að nafnið Svanfríður hæfi henni Svanfríði mjög vel svo að það var gott að hún fékk nafnið þitt.

Stella sagði...

Æi elsku vina, verð ég að segja, þetta hefur verið erfið byrjun hjá þér! Ég vona að þau sem ættleiddu þig, þegar þú varst fimm ára hafi bætt þér upp fyrstu árin... ég hef ekki séð berjabalamyndina þína á flakki, þó eru ansi margar slíkar myndir þessa dagana á síðum fésbókarinnar - ertu viss um að Örn hafi ekki bara sett hana á flakkið þar? Takk fyrir krosslögðu fingurnar, ég met stuðningin mikils! bestu kveðjur

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Hæ hæ.ég hef ekki séð balana en þeir hljóta að skjóta upp kollinum.
Það hefur oftast verið gott að heita Svanfríður nema kannski þegar Stebbi Hilmars og Pétur heitinn sungu "þessi Svanfríður,þessi Svan,Svanfríður-ríður...þá hefði verið gott að heita Sigga.

Nafnlaus sagði...

Já Gulla þetta er voða skrýtið ...ég er alveg með í maganum yfir þessu því Mikki minn varð stax ansi hændur þeim . . svo ég vona að það haldist tenging.

En þau eru ósköp yndæl Árdís og Dunni . . .

Bestu kveðjur

Inda

baun sagði...

en undarlegt athæfi að breyta nafninu þínu við ættleiðingu. ég er steinhissa bara. en fallegt að þið skylduð svo gefa Svanfríði nafnið:)

Lífið í Árborg sagði...

Þetta er ótrúlega saga með nafnið, en frábær hugmynd hjá ykkur að gefa dótturinni það, hún ber það vel. En ber í bala, þau hef ég ekki séð á flakki, meira um epli og plómur hér í kring.
Bestu kveðjur, Þórunn

Nafnlaus sagði...

Þetta með "aftökuna" á skírnarnafni mínu er ekki bara undarlegt og skrítið... það er kolólöglegt kæru vinir, en Helgi Hós fékk enga "leiðréttingu" sinna mála, lögráða maðurinn. Asnalegt í meira lagi. Ég sjálf, Gulla.

Nafnlaus sagði...

Ekki vissi ég þetta með nöfnin ykkar en mikið finnst mér þið mæðgur bera nöfnin ykkar vel.
Gangi þér vel í kennslunni Gulla mín. Hér á ég við 7. bekkinga fulla af hormónum í vetur og þau eru yndisleg þessi börn :)
Bestu kveðjur, Elsa Lára.

Íris Gísladóttir sagði...

Ja, hérna nú er ég hissa. Mér finnst reyndar Guðlaugar nafnið hæfa þér vel, en sennilega af því ég þekki þig ekki undir öðru nafni. En hvernig gekk 5 ára barninu að venjast nýju nafni, það leikur mér forvitni á að vita.
Fallegt að gefa dóttur þinni nafnið þitt sem þú fékkst ekki að eiga.

Nafnlaus sagði...

Ég tek undir með þeim hér að ofan, ekki vissi ég nú þetta og það hlýtur að hafa verið skrýtið og erfitt fyrir þig að fá nýtt nafn þegar þú varst fimm ára gömul.
kv. Helga Sigurbjörg