laugardagur, 19. desember 2009

Ameríkufarinn/staðreyndir.

Jæja, það kom þá að því sem enginn óskaði eftir, en mátti kannski búast við. Við erum heppin að búa ekki við herskyldu, sem ég ætla þó hvorki að mæla með né andmæla. Við erum öll friðarsinnar, og það er tengdasonur minn svo sannarlega líka. Nú reynir á litlu fjölskylduna í bláa húsinu, og ég trúi því að allt fari vel. Fáir þekkja dóttlu mína eins vel og ég, og ég veit hversu hún er megnug. Hún trúir oft reyndar ekki á styrk sinn, en að efast er bara gott. Þá anar maður ekki út í einhverja vitleysu. Dóttlan mín hefur alltaf barist fyrir sínu, og byrjaði hún á að berjast fyrir lífi sínu nýfædd, mikill og armur fyrirburi, en hún hafði það af. Bjartsýni er henni í blóð borin, og mikil fjarvera mín á fyrstu árum hennar fann hún alltaf eitthvað sem var gott. Þegar pabbi hennar (sem ekki kann á eldavél!) brasaði ofan í þau mat var það besti matur sem hún hafði smakkað og var alvöru! Stærðfræðin vafðist fyrir dömunni, en seiglan skilaði árangri. Allt sem hún ætlaði sér gekk upp með vinnu og trúfesti. Þegar dóttlan kynnti Bert til sögunnar leist mér ekki á í fyrstu, en ég treysti innsæi hennar og það hefur svo sannarlega skilað sér. Núna stendur hún/þau frammi fyrir stóru og ekki ásjálegu verkefni og auðvitað er kvíði í mannskapnum. Annað væri óeðlilegt. Dóttlan þarf að læra margt á skömmum tíma og standa sína plikt á sama tíma og Bert þarf að ljúka verkefni fjærri þeim sem hann elskar. Þetta kostar mikla fórn hvernig sem á það er litið, en ég hef trú: Trú á að þau standi sem fjölskylda saman að þessu verkefni með góðra manna hjálp, trú á dóttlu minni, trú á Bert og öllu því góða tengslaneti sem umvefja þau. Hjartað mitt blæðir þó. Mér finnst þetta ekki réttlátt gagnvart litlu snúðunum mínum, en það segir heldur ekkert um það í bókinni að lífið sé réttlátt. Ég bara vil að heimurinn sé góður, og ef ég gæti orðið kóngur í einn dag veit ég nákvæmlega hvernig ég myndi veifa sprotanum. Aðventan er tími okkar mæðgna gjarnan til tára, og ekki bætti þetta úr. En nú linnir "meyrheitunum" því bráðum hækkar sól og þá styttist í að Ameríkufarar komi í ömmu - og afahús. Bert er góður drengur og gegnheill, og ég veit að hann leggur allt í það sem hann er kallaður til. Komi hann heill til baka með guðsblessun. Þar til næst óska ég öllum gleðilegrar jólahátíðar með frið og gleði á öllum bæjum.

5 ummæli:

baun sagði...

Ég finn til með Svanfríði, Bert og strákunum en hef jafnframt trú á seiglu þeirra og styrk. Og þau eiga góða að, ekki má gleyma því:)

Óska þér og þínum gleðilegra jóla!

Lífið í Árborg sagði...

Ég fékk bara verk í hjartað þegar ég las pistilinn hennar um kallið sem kom, svo mikið finn ég til með þeim. En eins og þú segir þá hef ég trú á að þetta muni allt fara vel og þau öll koma sterkari persónur út úr þessu.
Innilegar jólakveðjur til þín og bestimann, vonandi verður hátíðin ykkur blessuð.

Ragna sagði...

Mér hefur alltaf fundist svo mikill dugur í henni Svanfríði og hef þá bjargföstu trú að hún sigli í gegnum þetta fram hjá öllum skerjum og boðum. Það er gott að spyrja sig hvað sé það versta sem gæti hafa komið fyrir og þetta er örugglega ekki það versta sem komið gat fyrir litlu fjölskylduna. Þau standa þetta örugglega af sér og koma sterkari út en nokkru sinni - þó það verði erfitt.
Hjartans kveðjur til ykkar með ósk um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.

Nafnlaus sagði...

Allt á þetta eftir að fara vel og enda vel. Þess óska bloggvinir þínir af heilum hug. Óskum ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi árum.
Kær kveðja afi.

Íris Gísladóttir sagði...

Held að við munum öll hugsa til fjölskyldunnar í litla bláa húsinu á komandi ári. Þetta verður ábyggilega ekki auðvelt, en það rennur víkingablóð í æðum dóttlu þinnar og ég held að hún muni standa þetta með sóma.

Gleðileg jól og heillaríkt komandi ár.