miðvikudagur, 30. desember 2009

"Glatt skal á hjalla og gleymd skal hver þraut"

Allavega ætla ég að reyna að lifa áfram samkvæmt þessu textabroti sem Brynjólfur leikari söng svo listilega á síðustu öld. (Jamm, ég kann vísurnar og því orðin eldri en tvævetra) Ekki ætla ég að skrifa annál, en sennilega verð ég með langloku ef ég þekki mig rétt. Fæ gjarnan ritræpu þegar ég byrja. Jólin voru yndisleg og bestimann fékk t.d. tvær geitur á fæti í jólagjöf og ég fékk peysukjól. Bækur og fleira fallegt rataði undir tréð, en pakkarnir frá dóttlunni og hennar fólki svífa einhversstaðar um Evrópu. Þegar þeir birtast verða önnur jól með öllu tilheyrandi. Tónleikar allir afstaðnir og flygillinn lokaður þar til annað kvöld, en þá verður nýja árið sungið inn. --- Hafði það af með smákökuáti á dögunum að eyðileggja eina tönn, og kostar það skrúfu í "málbeinið" með öllu heimsins vafstri og útlátum. Semsé, handleggjum og fótum. ---Náðum líka að fylla olíubílinn minn af bensíni, en það reddaðist eins og svo margt annað í lífinu. Nú gengur nýtt ár í garð og á þeim tímamótum vona allir að það færi okkur frið, ró og gæfu. Ég óska þess líka öllum til handa, og segi enn og aftur: Ég vildi verða kóngur í einn dag. Kæru bloggvinir nær og fjær, ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs þar til næst.

8 ummæli:

Lífið í Árborg sagði...

Takk sömuleiðis Gulla mín,megi árið færa þér allt gott, margar ferðir á frelsinu og fleira eftir því. Það verður aldeilis gaman þegar pakkarnir koma loksins, en það er svo gaman að hafa eitthvað að hlakka til. Bestu kveðjur frá okkur í kotinu.

baun sagði...

Gleðilegt ár í bæinn þinn og takk fyrir skemmtileg skrif!

Íris Gísladóttir sagði...

Þú ert greinilega mjög fjölhæf kona Gulla mín :)
Ætlið þið að hafa geiturnar í garðinum?
Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla

Frú Sigurbjörg sagði...

Gleðilegt nýtt ár!

Ragna sagði...

Ég sendi ykkur bestimann góðar óskir um gleði,frið og góða heilsu á nýja árinu.
Kær kveðja í fjörðinn fagra.

Ragna sagði...

Ég sendi ykkur bestimann góðar óskir um gleði,frið og góða heilsu á nýja árinu.
Kær kveðja í fjörðinn fagra.

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt Nýtt Ár !

Kveðja frá Þýskalandi,
Guðrún

Egga-la sagði...

kæri kóngur! Gleðilegt ár til ykkar á Hornó frá okkur í Osló.