þriðjudagur, 8. desember 2009

Á hvolfi?

Já, ég á það til að spila á hvolfi því þá horfi ég stundum í bláan himinn. Núna er hann hinsvegar svo asskoti svartur að mér líst ekki á þrátt fyrir jólaljósin. Okkur fer að vaxa sundfit með áframhaldandi veðurfari, og næst verður það ekki skutla sem keypt verður heldur kanói! Vaknaði við fuglasöng í morgun og illgresið vex sem aldrei fyrr. Þetta er jafn óeðlilegt og stjórnmálin í voru landi og hlýtur að vita á gos. Allavega segja þeir gömlu það, og mér hættir til að trúa þeim. ---Aðventan hér er lík og annarsstaðar á landinu með öllu tilheyrandi, og á þeim tíma er ég meyr í takt við dóttluna, en það rjátlast nú af okkur þegar jólin ganga í garð, en taka tvö hjá okkur hefst svo um áramótin. --- Skrítnar skrúfur við mæðgur.--- Það er líka margt skrítið í kýrhausnum ef vel er að gáð og færni er til, en hver nennir að spá í það svosem. En er ekki svolítið "kýrhauslegt" í litlu samfélagi að það skuli vera 9 tónleikar í desember, lestur úr nýjum bókum, stórhátíð hjá Sindra og stórmarkaðir um hverja helgi? Þá er örugglega ekki allt upp talið, en alls staðar er mannfjöldi. Skyldi það vera vegna þess að við Hornfirðingar erum ekki alveg á þjóðvegi 1, og höfum ekki td. Akureyri upp á að hlaupa og verðum að vera sjálfum okkur nóg? Góð pæling frá einni á hvolfi þar til næst.

4 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Sko ég verð að viðurkenna eitt að þegar þú spilar á hvolfi þá er líka góð skemmtun að fylgjast með þér leggjast á gólfið og standa aftur upp (lof jú) Ykkur er guðvelkomið að fá þennan snjó sem fellur hér.Bara að nefna það.

Lífið í Árborg sagði...

Ja hérna, þetta eru undarlegar stellingar við að spila á píanó, en einhver hlýtur tilgangurinn að vera. Það er greinilega nóg að gera á Höfn í desember, er það ekki hið besta mál?
Þú setur svo inn myndir þegar þú verður komin á kanóinn. Kveðja úr kotinu.

Frú Sigurbjörg sagði...

Mikið vildi ég myndin hefði verið myndband og ég gæti heyrt þig spila á hvolfi! Flott mynd: )

baun sagði...

Þetta er alveg brilljant Guðlaug - geturðu í alvöru spilað svona?