sunnudagur, 21. nóvember 2010

Mannauður.

Það hefur oft verið erfitt að manna stöður tónlistarkennara á landsbyggðinni, og kemur margt til. Íslendingar fara utan til frekara náms, launin ekkert til að hrópa húrra yfir og allt fyrir ofan Ártúnsbrekku er of langt fyrir einhverja. Í litlum skólum á landsbyggðinni telst til tekna að geta kennt á mörg hljóðfæri, en það er ekki öllum gefið. Samt sem áður er tónlistarlíf víða á landinu með miklum blóma og gerir ekkert nema gott fyrir viðkomandi stað. Þá er að leita til útlanda eins og margir hafa þurft að gera og fengið margan góðan manninn til sín. Djúpivogur er einn þeirra staða sem hafa fengið svolítinn happdrættisvinning. Þar eru hjón sem eru að byrja sitt annað ár, og virðast gjörsamlega falla inn í umhverfið. Við megum heldur aldrei gleyma því að uppúr seinna stríði ( og jafnvel fyrr) komu hingað til lands frábærir tónlistarmenn sem settu svo sannarlega víðari "kúltúr" á tónlistarlífið og urðu góðir og gegnir Íslendingar. Þetta vil ég kalla mannauð í víðasta skilningi. Nú er ég að vinna einsöngstónleika með mínum manni frá Djúpavogi, og verða þeir fyrstu þann 25. nóvember. Marga músíkina hef ég spilað, en enga frá heimalandi söngvarans fyrr en núna, og skil þar af leiðandi ekkert í orðunum! En alheimstungumálið er í raun auðskilið, það er músíkin. Þess utan eru óperuaríur, léttmeti og þrjár íslenskar söngperlur, og er ég undrandi hvað maðurinn gerir þeim góð skil. Hið undur fallega lag "í fjarlægð" fer vel í Ungverjann, að ekki sé talað um Inga T. Það eru margir sem fjandast út í að útlendingar séu að koma hingað, setjast að fyrst í stað á litlum stöðum úti á landi en flytjast svo suður og hertaka allt. Ef "við" getum ekki mannað stöðurnar þá gera það aðrir, svo einfalt er það. --- Allt í friði og spekt hér á Hólabrautinni, píanóstillarinn hamast hér um grundir og móa og skilur eftir sig stillta slóð. ---Þrjár smákökusortir bíða í dunkum eftir aðventunni, búin að lesa fjórar nýútkomnar, jólapakkar farnir út og suður og gleðigjöfunum mínum fjölgar. -- Af þessu má sjá að lífið er gott þar til næst.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alltaf gaman að lesa pistlana þína Guðlaug mín er of löt að kvitta og þakka fyrir mig.Kv.Ásta,Akureyri.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég elska þig elsku mamma:)