fimmtudagur, 4. nóvember 2010

Dinglumdangl

Nokkuð gott orð, dinglumdangl..þannig líður mér núna! Hugsanirnar og plönin út og suður og gott ef ekki upp og niður. Langar að skreppa og passa barnabörnin, langar að leyfa foreldrum þeirra að labba hönd í hönd upp og niður Hillcrest Rd. Langar á Rigoletto, en allt uppselt, og mig langar að allir hafi það jafngott og ég. Ætli þetta endi ekki bara á að ég baki jólasmákökur í marga stauka. Áður en af því verður ætla ég að hitta ungverskan tenorsöngvara og saman erum við að æfa tónleikaprógram. Vonandi náum við saman í fyrstu umferð. -- Skrýtið þetta líf.--- Þessi Ungverji er hámenntaður tónlistarmaður en hefur það betra á Íslandi heldur en í heimalandinu. Á litlum stað á austfjörðum lifa þau hjón í allsnægtum að eigin mati. Hreint loft, ómengað vatn og fólkið gott, en Íslendingar hinsvegar flykkjast til annarra landa þessa dagana. Kannski vegna þess að við erum svo góðu vön, en þegar lífsstandardinn dalar finnst mörgum að grasið hljóti að vera grænna hinu megin. --- Mér dettur oft í hug beljurnar heima á Gunnlaugsstöðum sem tróðu hausnum gegnum gaddavírsgirðingarnar og teygðu tunguna eins langt og þær gátu í grasið hinumegin. Kannski erum við með belju-hugsunarhátt! Þrátt fyrir annir er ég búin að lesa fyrstu bók væntanlegs bókaflóðs. Á vængjum söngsins, sögu Kristjáns Jóhannssonar. Ekki kom margt þar fram sem ekki hefur áður verið sagt, en sennilega er eitthvað látið ósagt. Hvað sem því líður hefur sá ágæti maður víða komið við. Á þessum dinglumdanglsnótum bið ég ykkur vel að lifa þar til næst.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Á valdi örlaganna heitir bókin. Þarna varð mér á í messunni. Ég sjálf.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Og þannig er það með okkur öll kannski,að við séum að einhverju leyti á valdi örlaganna?

Íris Gíslad sagði...

Ég er belja, muuuuuu ;)