miðvikudagur, 29. desember 2010

Grýluljósmynd


Titillinn hefur alls ekkert að gera með myndina, bara að komi skýrt fram! Myndin atarna er af þeim mönnum sem ég elska mest að öðrum ólöstuðum. Það er þetta með Grýlu, en Eyjólfur minn er ekki alveg að gúddera þetta gerpi. Elskar hana en er alveg dauðhræddur við illfyglið. Natti minn er svoddan garpur ennþá (enda bara baby) að Grýla er ekkert svo skelfileg. Ég á alla sveinkana í styttuformi ásamt foreldrunum og kattarræksninu og hef verið í gegnum stutta ævi Eyjólfs sýnt honum þetta hyski á skybe. Augun hafa alltaf orðið stór og þessi svipur komið, elska ykkur og hata. Þegar við bestimann fórum svo með "dýrðina" til Ameríku gat þessi litli gutti ekki beðið eftir að sjá familíuna. Allspenntur, frómt frá sagt. Hann stóð við hjónarúmið og hélt sér vel í. Þegar Grýla birtist seig hann neðar og neðar þar til hann hvarf og kallaði á mömmu sína. Þetta var dásamlegt andartak. Tek það fram að enginn hefur nokkurn tímann hrætt hann á kellu, en gömlu vísnabókina á hann. Það segir sitt fyrir hugmyndaflugið.---- Þá kemur altso að bestimann og hans Grýlu. --- Í fyrstu ferð okkar vestur sá hann ljósmynd af verkamönnum í kaffipásu við að byggja Rockefeller center hvar þeir sitja á þverslá og hafa það huggulegt. Fyrir neðan blasa skýjakjúfarnir við eins og legókubbar að stærð. Minn maður tók andköf og fékk gæsahúð af lofthryllingi, en vildi óður og uppvægur eignast svona mynd. Ekki gekk það þá og ekki næst eða þarnæst. Hvað kemur svo upp úr pakka frá dóttlunni.... ljósmyndin góða, og minn maður tók andköf þegar hann sá hana. Rétt eins og Eyjólfur þegar Grýla birtist. Nú er þessi hrikalega mynd komin upp á vegg í góðri augsýn fyrir bestimann, og er eins víst að hann venjist henni með tímanum eins og litli snúðurinn lærir að kella venst með aldrinum. --- Litli kettlingurinn minn bæklaði í formi jólatrés stendur sig vel, og þar sem stærsta holan var liggja jólasveinar og könglar í hrúgum. Þar sem mesta gapið er neðanmáls sitja tvær flottar steinstyttur af manni og konu í íslenska búningnum, en þær gerði góður nágranni. Þetta er bara fallegt og vona ég að tréð kunni okkur góðar þakkir fyrir nostrið. Ég sendi mínar bestu óskir um friðsæl áramót og gott komandi ár þar til næst.

5 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Þetta var skemmtilegur pistill.Það kætir mig að myndin eigi sér góðan stað og að ykkur líki hún.
En sko,með Natta og Grýlu. Hann er voða mannalegur þegar hann segir frá henni en svo sagði hann daglega á meðan hann fékk í skóinn-good Grýla ekki koma. Þannig að ekki stendur honum á sama og þeir biðja mig stundum um að syngja Nú er hún Grýla dauð,svona eins og til að vera öruggir um að hún sé dauð;)

baun sagði...

Þessi fíni pistill rifjar upp fyrir mér Grýluhræðslu sjálfrar mín í æsku, en ég starði iðulega á Grýlumyndina í Vísnabókinni (skelfingu lostin). Hélt samt alltaf áfram að fletta upp á henni til að glápa og hrylla mig.

Frú Sigurbjörg sagði...

Fallegir piltar og skemmtilegur pistill!

Nafnlaus sagði...

Skemmtilegar sögur,takk fyrir þær,svona mætti oftar heyrast(sjást)núna á þessum"bölmóðs"tímum í þjóðfélaginu.Gleðilegt ár.

Kv.Ásta.

Nafnlaus sagði...

Ekki er ég hissa á að þú skulir elska þessa ungu herramenn, þeir eru svo elskulegir. Skemmtilegar frásagnir hjá þér.
Ég og minn "bestimann" sengum ykkur góðar kveðjur með ósk um gott nýtt ár með þakklæti fyrir samskiptin á því liðna.
Þórunn.