sunnudagur, 12. desember 2010
Jamm og jæja
Ef þið haldið að ég sé þarna bara upp á punt er það hinn mesti misskilningur, og það er mjög gaman að tromma á svona flott hljóðfæri. Svei mér þá ef ég væri ekki til í að eiga eitt slíkt. Í morgun var hinn árlegi jóla-morgunverður hjá hópi góðra kvenna, og þá kemst ég í jólaskap. Fyrstu tónleikar tónskólans búnir og tvennir eftir. Stakir Jakar sungu á HSSA í dag, og í gær var jólastund hjá heldri borgurum staðarins. Í gærkvöldi fórum við bestimann á danskt jólahlaðborð að hætti Vivi, og var ég í raun uppgefin á átinu. Hvað eiga þessi jólahlaðborð eiginlega að þýða? Á maður ekki að hálfsvelta sig á aðventunni? Ég bara spyr svona í barnaskap mínum. ---Oft hefur verið ritað og rætt um slys í heimahúsum, og margar fyndnar sögur fylgt, þótt slys séu alls ekki fyndin. Ég lenti sem sé í hinu mesta basli í fyrrakvöld við klósettþvott! Allt orðið hreint og fínt þegar ég sé að seturnar á stellinu eru við það að falla með skelli, og skelli þoli ég ekki. Með undraverðum viðbrögðum hnjálausrar konu rak ég hægra "hnéð" uppundir til að draga úr skellinum....Úff.. hann lenti beint á hnjáskelslausum lið, og ég horfði á marið koma fallega fram. Með báðar hendur fullar að hreinsiefnum stóð ég á hinni ónýtu löppinni og sagði voða ljótt. Þetta var eiginlega bæði hallærislegt og asnalegt, en jafnframt fyndið. ----Næsta vika verður undirlögð af jóla jóla, tónleikum og alles. Ég ætla að njóta þess að vera með og bið ykkur öll að gera slíkt hið sama þar til næst.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Eða þá sagan þegar þú málaðir svo mikið að þú fékkst málverk og það eina sem virkaði á þér var hausinn og hvað,vinstri höndin?
Það hefði örugglega verið betra að heyra skellinn, en maður er oft svo vitur eftir á. Ég finn til í hnénu með þér.
En gott áttu að geta verið með í öllu þessu tónaflóði, það gerir manni svo gott.
langt síðan að ég hef ferðast um pistlasíðurnar - gaman að kíkja inn og sjá að þú ert enn jafndugleg að skrifa. já klósettsetuskellir eru verri en allir hurðaskellir, og því var ég í þvílíkri sæluvímu er ég fann ný lok á mínar skálar sem leggjast sjálfkrafa niður rólegheitunum og það hljóðlega líka...
farðu vel með þig!
bestu kveðjur
Skrifa ummæli