sunnudagur, 9. janúar 2011

Hvippurinn og hvappurinn!

Ég vil byrja á því að óska ykkur öllum gleðilegs árs, með þökk fyrir innlitin á síðasta ári. Það hefur heldur fækkað í þessum bloggheimi frá því sem áður var, og sakna ég margra. Er haldin einhverju heilkenni þar sem mér finnst að allt eigi að vera eins og var, en altso eftir mínu höfði!
Jólin eru búin og grýla farin, en það verður víst ekki langt þar til jóladótið verður tekið fram á ný ef fer sem horfir. Nánast kominn miður mánuður. Grýluljósmyndin hefur fengið sinn sess á heimilinu og enn fær bestimann smá hland fyrir hjartað við að horfa á hana! ---- Eins og það er gott að flækjast um á náttbuxunum í góðu fríi er jafn ömurlegt að þurfa að hanga í þeim og vera með samviskubit. Bölvuð flensupest gerði mér lífið leitt í viku, en nú er ég að ná vopnum mínum og held glaðbeitt og hress út í vinnuvikuna og er bara bjartsýn. Ekki svooo langur tími þar til litla fjölskyldan mín í Ameríku sameinast á ný, og ekki svoooo langt þar til við bestimann sjáum þau. Ég er hreykin eins og hani á haug hvað þau hafa öll staðið sig vel. --- Hef ótrúlega lúmskt gaman af þegar dóttlan mín lýsir talanda nattalíusar. ----Ég viðhef (ó)-virka hlustun og brosi í laumi og minningarnar flæða fram, því einu sinni var hnátan lítil og þurfti að tala, og hún gat talað endalaust. Þegar við vorum t.d. að koma frá Reykjavík og sáum Höfn af hæðinni hjá Stapa var eins og flóðgáttir hefðu endanlega opnast, og bunan stóð út úr henni. ---Yndislegt í minningunni.---Mér skilst að ég hafi verið eins sem barn, og ef enginn nennti lengur að hlusta þá söng ég bara. Enginn skyldi halda að eðlið segi ekki til sín. --- Áramótaheit gaf ég engin nema þau að halda áfram að reyna að vera mér og öðrum góð. Á þeim nótum sendi ég ljúfar yfir þar til næst.

6 ummæli:

Lífið í Árborg sagði...

Gleðilegt ár bæði tvö og takk fyrir allar heimsóknir í Austurkot. Ég er ekki hissa þó bestimann fái hland fyrir hjartað við að horfa á þessa mynd, ég fæ alvarlegt svimakast við að sjá þetta. Já það er gaman að fylgjast með fólkinu í litla bláa húsinu, þar er allt svo eðlilegt og heimilislegt.Bestu kveðjur úr rigningu og raka.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég er alveg þess viss að ég hafi nú sungið líka:)
Þórunn:þessi mynd var á óskalista pabba og mömmu líka held ég-finnst þér ekki ótrúlegt að þeir hafi bara setið þarna og snætt nestið sitt?

Frú Sigurbjörg sagði...

Myndin talar um löngu liðna tíma og segir frá ótrúlegu þrekvirki. Ljúfastar kveðjur með von um gleði og gæfu á nýju ári.

Egga-la sagði...

Gleðilegt ár til ykkar líka. Ég skoða ekki svona myndir. Líður yfir mig af svima!

Ragna sagði...

Gleðilegt og gott ár og takk fyrir góðu samskiptin á því gamla. Já ég fylgist líka spennt með sögunum úr Litla bláa húsinu og finnst hún Svanfríður halda svo vel utanum fjölskylduna sína. Það er gott að nú styttist í sameininguna. Það eru fleiri sem fá hland fyrir hjartað en hann bestimann þinn.
Gott að flensan er búin og þú flogin út í nýja árið.
Ég var loksins að myndast við að blogga aðeins um hremmingar mínar við heilbrigðiskerfið. Þakka þér fyrir stuðninginn.
Kærust kveðja til ykkar.

Ragna sagði...

Hvílíkt sundurlaust komment sem ég var að setja inn. Vonandi fyrirgefur þú það - ég vanda mig betur næst.