miðvikudagur, 13. apríl 2011

jamm

Tók stórt skref í dag, og fékk þrjár húfur, fjandi smart barasta. Allavega ætla ég að horfa þannig á þetta. Undirbúningur er af hinu góða tel ég mér trú um og þar sem ég er svo trúuð á sjálfa mig get ég gert allt mögulegt. Líka að vera eins og Florence Nightengale einn daginn, Mary Poppins annan daginn og Greta Garbo þann þriðja. Svo ætla ég líka að eiga túrban að hætti ríkra olíufursta! ----- Í síðustu suðurferð drukknaði minn dásamlegi sími í LGG morgundrykk. Fer ekki út í það nánar, en það er víst hægt að drekkja síma í LGG. Svaraði ekki kosnaði að gera við hann, svo í morgun lagði ég í símakaup. Og það get ég sagt með svo miklum sann að ég veit akkúrat ekkert um fídusuna í þessum græjum. Sá Nokiasími sem nálgaðist að vera eins og sá sem drukknaði fæst ekki í landinu sem stendur, svo þá helltist yfir mig valkvíði, og ekki hafði afgreiðslumaðurinn nokkurn skilning á fötlun minni. Ropaði því þó út úr sér að þessi hérna væri mikið keyptur og þætti góður. Það dugði mér og ég festi mér einn þannig. Spurði mannin hvort þetta væri Nokia........Nei....þetta er LG! Það lá við að ég skellti upp úr. Síminn er flottur, ekki vantar það, en ég þyrfti að fá einhvern í 5 bekk til að kenna mér á hann. ---- Fer í síðustu rannsóknina á morgun fyrir lyfjagjöfina, og verð fegin að fá hvíld frá amstrinu þar til hún byrjar. Sendi ljúfar yfir þar til næst.

6 ummæli:

Frú Sigurbjörg sagði...

Njóttu þess að nota húfur, hatta og túrban hvort heldur sem þú ert Florence, Mary, Greta eða Guðlaug : *

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Af þessum konum sem þú telur upp þá er þú langflottust:) Þú ert falleg og húfurnar fara þér vel. Gangi þér vel á morgun mamma mín.

baun sagði...

Haha, það er varla að LG sími fari að drukkna í LGG!

Nafnlaus sagði...

Efast ekki um að þú verður bara fín, spurning um föndurnámskeið eins og við töluðum um. Hvað símann varðar ættum við kannski að fara saman á símanámskeið!! Gangi þér sem allra best fínust mín, Magga

Lífið í Árborg sagði...

Ég hef alltaf dáðst að konum sem nota hatta og húfur, finnst þær svo flottar og efast ekki um að þú berð þessi höfuðföt vel.
En hvað ég skil að þú hafir fyllst valkvíða þegar þú sást úrvalið af símum, ég er svo ánægð með minn Nokia, eins einfaldur og hann er. Gangi þér allt í haginn Guðlaug mín, bestu kveðjur frá kisu-kotinu.

Ragna sagði...

Þú verður flott með höfuðfötin, ekki spurning.
En um símana,þá drukkna þeir á ýmsan máta. Tengdasonur minn var að mála hjá sér og missti sinn úr brjóstvasanum og ofan í málningafötuna og stuttu seinna missti Haukur sinn síman í klósettið.
Kær kveðja.