föstudagur, 30. september 2011

25mínus2eru23!

Eins og sést fer ég að geta slengt lokkunum og fengið valkvíða við að velja sjampó! Komin til vetrardvalar liggur við og er byrjuð í geislum. Það er alveg sama hvaða teymi tekur við mér, allir eru englar. Dreif mig í Ljósið strax á öðrum degi og fékk nærri hjartaáfall. Þarna var þá akkúrat þann daginn prjónakaffi! Halló, sá sem veit eitthvað veit um mig og handavinnu. Ákvað að hlæja frekar en að fá áfall, en mikið hvað okkur bestimann þótti þetta skondið. Hvað ég geri er allsendis óljóst, kannski ég byrji nú á einhverju prjónlesi eða öðru föndri!? Þarna get ég líka lært skartgripagerð og keramikmálun, en ég held bara að ég sleppi þessu. Dagarnir hljóta að líða þrátt fyrir skort minn á allrahandaföndri. Ýmislegt er gert í Ljósinu og finnst mér það sem ég sá og heyrði yndislegt. Staðreyndin er nú sú að t.d get ég illa stundað þá hreyfingu sem í boði er, og ef ég get ekki gert hlutina vel þá sleppi ég þeim opinberlega og geri þá á heimavelli. Ágætis lausn. Er hjá sjúkraþjálfa og þar fæ ég að púla. Annars bara í þokkalegum gír, og bannorðið mitt næstu vikurnar er LEIÐI, algjört tabú því ég er í góðum málum. Þarf eingöngu þolinmæði, og hingað til hefur hún verið á góðu róli. ----Ég þori ekki að fullyrða neitt, en ég er samt viss um að ég sá eina bloggvinkonu með sínum manni í gærmorgun á leið minni á spítalann........Kannaðist við svipinn á þeim í gegnum bílrúðurnar. Doldið fyndið ef satt reynist hvað landið er lítið. Katla voru þið á ferð á Snorrabrautinni á ljósleitum jeppa? Annars á maður ekki vera að glápa út og suður á keyrslu, ekki frekar en að borða spaghetti undir stýri. Geislandi glöð kveð ég þar til næst. Ps. Sakna bestimanns all svakalega.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gangi þér vel Gulla mín, vonandi flýgur tíminn áfram....sendi þér fallegar hugsanir og slatta af þolinmæði!
kv. Helga

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég vona einnig að tíminn verði fljótur að líða og að þú getir hitt marga af þínum vinum á meðan þú ert fyrir sunnan. Elska þig,Svanfríður.

Nafnlaus sagði...

óska þér endalaust góðs gengis í geislunum, þar kynnumst við enn einum pakkanu af yndislegu hjúkrunarfólki og sálufélögum á biðstofunni, þarna inni ríkur alveg sérstakur andi að mér finnst en alveg ofsalega góður og einhver viss samkennd sem ásér stað þarna :-) en ég ætla nú að kveðja þetta góða fólk á mánudaginn og fara heim og taka endanlega uppúr minni tösku, enda ekki seinna vænna eftir 33 skipti þarna :-) en allavega gangi þér sem allra best í gegnum þennan lokakafla á þessu erfiða verkefni :-)
kv. Kristrún

Elísabet sagði...

Það væri nú gaman að hitta þig yfir kaffibolla, netfangið mitt er betabaun@gmail.com. Engin pressa, endilega láttu þér batna sem best. Og hvað hefurðu eiginlega á móti handmennt kona? Er það samkeppnin við tónmenntina? ;)

Nafnlaus sagði...

ég er búin að reyna svo oft að setja hér inn nokkur orð, en þau hafa alltaf þotið út í buskann. Vonandi tekst það núna, gangi þér vel, þú verður líklega farin heim þegar ég mæti á svæðið 19. október, en mikið væri gaman að hittast.
Þórunn

Íris sagði...

Skil þetta með söknuðinn vel. Vona bara að þú finnir þér sitthvað til dundurs sem mun drepa tímann hratt og örugglega. Gangi þér glimrandi vel með þetta. Ljúfar kveðjur frá Sotru.

Ragna sagði...

Getur þú ekki tekið lagið fyrir þau í Ljósinu eða slá fyrir þau nokkrar nótur. Það eru ekki allir fyrir handavinnuna. Annars hef ég þá trú að þú lýsir líka sjálf þar sem þú kemur með þinni jákvæðni.
Kær kveðja til ykkar í útlegðinni. Vnandi flýgur tíminn.

Nafnlaus sagði...

Gangi þér sem allra best í þessum síðasta áfanga.Sendi þér í huganum heilann ljóðaflokk(þetta gæti nú verið upphaf á vísu!)af þolinmæði og góðum kveðjum.Ásta í L-5.

Nafnlaus sagði...

Góða strauma og ljúfar kveðjur sendi ég þér og Bróa.

Kv.Guðrún Sigfinns

Frú Sigurbjörg sagði...

Nei kæra Gulla, ekki vorum það við, erum stödd alls fjarri í Tyrklandi sjáðu. Þér hefur bara verið hugsað til mín eins og mér til þín : )

Mikið sem ég skil þig með handavinnuna og föndrið; ekki minn tebolli, enda er ég meira fyrir kaffi ; )

Ylvolgar kveðjur frá hlýju Tyrklandi.

Egga-la sagði...

Æi skil þetta alveg með föndrið. Get ekki einu sinni fest tölu og það yrði að fylla mig all svakalega til að fara að prjóna á almannafæri. Geturðu ekki bara spjallað í staðinn. Viss um að allhörðustu prjónakonurnar geta spjallað og prjónað samtímis. Við þurfum ekki öll að kunna að handavinnast. Og þú ert svo góð í mörgu öðru. Gangi þér allt í haginn. Kveðja frá Noregi.

Ragna sagði...

Ég sé að það hefur ekki bættst við nýr pistill, en það breytir því ekki að ég er að hugsa til þín og það vil ég að þú vitir.
Ef þig langar að kíkja í kaffi eða hittast á kaffihðusi, þá er minnsta mál að sækja þig. Líka ef það er eitthvað annað sem hægt er að vera þér innan handar með. Svona kellur eins og ég, sem er ekki í vinnu hafa alltaf tíma. Kær kveðja og gangi þér vel.