þriðjudagur, 6. september 2011

Ljótan atarna!

Ég var varla búin að blása á blekið í sjálfblekungnum síðast þegar alræmd sýkingin bauð góðan dag. Og nú var sko ekkert elsku mamma eða amma. Síðan á föstudaginn var hef ég legið í einangrun að mestu leyti og allt heimsins besta lið vakið og sofið yfir velferð minni. Ég sem skjólstæðingur HSSA á Höfn hef ekki orðið vör við niðurskurð, en auðvitað er hnífurinn hér á lofti eins og annarsstaðar. Hví í veröldinni er ekki hægt að þyrma grunnstoðum samfélagsins. Við búum við allsnægtir, að geta gengið inn og fengið góða læknisþjónustu er því miður ekki allsstaðar í boði. Skólarnir... Æ, ég kann ekki ráðin, en ég kaus fólk einusinni til að ráða þessu en það lið stendur varla undir sjálfu sér í dag. Hvað þá á grunnstoðunum!---Fréttatíðnin er lítil þessa dagana, en bestimann er sá eini sem er æskilegur að hitta mína æruverðugu persónu, og ekki fer elskulegt starfsfólkið að segja mér djúsí fréttir. Þess vegna hlusta ég bara á RUV horfi á sjónvarpið en yfirleitt eru augun dottin og þannig líða dagarnir. Þó hef ég tekið meira eftir lífinu í kringum mig í dag en í gær, einfaldlega vegna þess að mér líður mun betur. Farin að geta talað og kyngt, sýkingin í olnboga og augum líka á undanhaldi.---Ég týndi sem betur fer ekki sálinni, hún bara hvíldist um stund. Svo segi ég bara eins og karlinn, Vittu til........á morgun verð ég bæði falleg og mikið brött. Þar til næst elskurnar.

7 ummæli:

Ragna sagði...

Það á aldeilis að reyna í þér þolrifin Guðlaug mín, en þú vinnur nú þessa lotu eins og allar hinar ef ég þekki þig rétt.
Hjartans batakveðja til þín og kær kveðja til bestimann.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Þú ert svo dugleg!!!Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga...það er víst. Elska þig og Bert biður að heilsa.

Íris sagði...

Gott að þetta er á undanhaldi, heldur óskemmtilegar svona sýkingar. Vonandi tekst þeim á HSSA að hræða viðbjóðinn í burtu sem fyrst. Reikna með því að það sé dekstrað við þig þar. Góðan bata.

Nafnlaus sagði...

Góðan bata.Kv.Ásta.

Frú Sigurbjörg sagði...

Gott þú týndir ekki sálinni, hún er svo falleg og björt. Góðan bata.

Nafnlaus sagði...

Gott að heyra að þetta skuli vera á undanhaldi Gulla mín. Reynum að senda þér góða strauma.
Kveðja
Friðbjörg

Lífið í Árborg sagði...

Mér finnst alveg ótrúlegt að fólk skuli þurfa að ganga í gegnum svona hremmingar til að ná bata, en við því er víst ekkert að gera og gott að heyra hvað er hugsað vel um þig. Nú hlýtur þetta að fara að taka enda, gott að heyra að þú hefur hvorki tapað sálinni nér húmornum. Bestu kveðjur til ykkar beggja.