föstudagur, 22. mars 2013

Larfurinn lifandi!

Titillinn er eitthvað svo Séð og heyrt-legur. Þið vitið, svona sætar saman og allt það. Ég þekki suma sem þola ekki svona ódýr rímuð orð í blaði! Mér finnst t.d. miklu betra rím þegar litli Eyjólfur minn rímaði: Jólasveinn/skóhorn. Það þarf ekki ritsmíðamenn á launum til að það virki. ---Jæja, nú er stóra skoðunin búin og ég kom vel út úr henni. Læknirinn sagði mig engum til vandræða og held ég vel í þá skoðun. Eftir svefnlitlar nætur á undan skoðun var eins og valtari "hebbði" keyrt yfir mig þegar henni lauk. Hélt  ég væri orðin sjóuð, en...vonandi verð ég aldrei of sjóuð. Að vera ekki sjóaður er maður á lífi og kann að meta það betur, ekkert er sjálfsagt í henni veröld.  Alla vega mín trú.-- Eftir langa starfsævi við hljóðfærið hef ég ennþá mörg fiðrildi í maganum og sálinni þegar ég kem fram, kann ekki annað og vona að ég verði aldrei af örugg eða kærulaus. Þá er ég hætt, og hana nú. ---Í Rvík. fórum við bestimann fínt út að borða með vinum. Héldum semsé uppá gott gengi. Frábært kvöld og frábær þjónusta, en fyrsti skammtur af mat stóðst ekki kisupróf. Seinni skammtur hinsvegar sælgæti. Bestimann vildi gefa mér að smakka á sínum rétti en svo fór að bitinn góði rann ljúflega í hvítvínsglasið mitt. Nú átti ég ekki mat og ekkert vín!  Hvað gera klassadömur þá? Veit ekki um þær, en ég flissaði og fannst þetta frekar fyndið en þó sérstaklega svipurinn á mínum besta vini. Þjónarnir björguðu svo öllu og við fórum södd og sæl út, en ég held að ég fari annað næst. --- Eftir tékkið fór ég í vímu og keypti skokk í góðri búð. Maður á ekki að fara oft í góðar búðir til að kaupa skokka, en, ég ætla samt aftur í maí þegar næsta holl hefst í afturbatanum. Þangað til ætla ég að klára alla tónleika og próf, lesa bækur, elda góðan mat, spila og syngja inná disk og vonandi eitthvað meira. Þegar læknahollið er búið hefst biðin eftir yndislegu fólki frá Ameríku. Hjól og kojur fyrir snúðana í höfn, bækur og annað verður líka klárt, og Natti fær að sofa í efri koju! ---Eins og titillinn segir er larfurinn á lífi, hress og kátur að vanda þar til næst.

6 ummæli:

Ragna sagði...

Elsku Gulla mín - Ég er svo ánægð að þetta gekk allt vel. Ég ætlaði að hafa samband á meðan þið voruð í borginni, en einmitt þessa helgi var ég með litlu ömmustelpurnar mínar til skiptis í pössun - nokkuð sem er langt síðan hefur gerst, svo ekkert varð úr neinu öðru. En það máttu vita að ég hugsaði mikið til þín. Kærust kveðja til ykkar Bróa í fallega fjörðinn ykkar.

Nafnlaus sagði...

ElskuBesta ég er hrikalega ánægð að tékkið gekk vel. Ég vil minna þig á, að þegar þú ert í bænum eigum við eftir að borða saman og eiga notalega kvöldstund í heimahúsi! Við þurfum ekki bara að hittast í Ameríkunni :D

Lífið í Árborg sagði...

Ljúfi, larfurinn lifandi, það var gott að heyra hvað þið fenguð góðar fréttir og ekki undrar mig að kátína hafi tekið völd við kvöldverðarborðið um kvöldið. Þið haldið auðvitað áfram að njóta lífsins með öllum góðu uppákomunum sem eru framundan. Gaman væri ef þið gæfuð ykkur tíma til að koma í kaffi og spjall þegar þið eigið leið um suðurlandið. Kærar kveðjur frá okkur Palla.

Frú Sigurbjörg sagði...

Elsku Gulla, gleðst eins og pilsaþytur að vori yfir öllu sem þú hefur að gleðjast yfir!

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Bestu fréttirnar eru auðvitað þær að þú fékkst góða skoðun! Amen:)

Unknown sagði...

Gaman að sjá þig, rétt eftir valtarann, svona líka hressa og káta mín kæra. Bestu kveðjur á frænda :)