föstudagur, 21. desember 2007

Dásamlegur grautur....

Kæru bloggvinir, nú er jólapistillinn sem kannski fáir lesa því margt þarfara er að gera þessa dagana en að flækjast um í netheimum. ---Hvað um það.--- Ég er alin upp við jólagraut, þá meina ég sko "risalamang" (ekki rétt skrifað). Ég sem ung nýgift kona innleiddi mína siði við jólahaldið, en þó með góðri blöndu við það sem bóndinn ólst upp við. Í tímans rás eru siðirnir orðnir okkar, en alltaf hefur grauturinn góði fylgt okkur. Meðan mamma lifði hringdi ég alltaf í hana klukkan eitt á aðfangadag og við fórum yfir grautargerðina. Bara svona uppá hefðina. Fyrstu jólin mín án mömmu fór allt í vaskinn og ég brynnti músum, en systir mín kom þá til "bjargar". Maðurinn minn elskar grautinn góða, en dóttir okkar hefur aldrei þolað hann. Hún reyndi ár eftir ár í okkar þágu, en kúgaðist bara. "Get ég ekki bara fengið Royalbúðing" spurði sú stutta, og hefur því öll sín jól í foreldrahúsum fengið sinn Royalbúðing! Ég hef í áranna rás búið til ótalmargar tegundir af eftirrétt á jólum, en ekkert hefur gengið í mitt fólk nema grauturinn góði og Royal! Á síðustu jólum var litla fjölskyldan í ameríska bláa húsinu hér, og sem eftirrétt var ég auðvitað með grautinn og hlakkaði til að sjá Eyjólf smjatta á honum, því hann elskar eftirrétti. Og sjá....hann kúgaðist og bað um "eins og mamma". Þá var fokið í flest skjól. Ég verð að taka það fram að grauturinn góði ER góður! ---Í gær þegar öll jólainnkaup voru búin, og þar með allt hráefni í grautargerð kvað minn elskulegi uppúr með að hann langaði nú bara í Royal!! Halló... en grautinn hef ég á jóladag....Siðir og venjur er greinilega breytingum háð, en ég þoli illa að fara útfyrir rammann.--Geri það þó núna með lambahrygg og Royal og ætla að"fíla" mig royal. Mest um vert er að allir fái það sem þeir vilja helst, ég tala nú ekki um þegar hægt er að veita þeim það. ---Í gær var sett upp vefmyndavél beggja megin Atlandshafsins, svo núna höfum við litla fjölskyldan talað og horft.--Yndislegt.--- Eyjólfur hefur sungið fyrir okkur og Svanfríður gefið Natta að borða, allt í beinni. Í kvöld fór ég enn og aftur að brynna músum þegar Eyjólfur söng, en Svanfríður setti plástur á sárið með gullvægri setningu: "Mamma mín, þetta er alveg að verða búið, jólin eru eftir 3 daga!"--- Þar kenndi eggið hænunni.----Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

13 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Jæja. Nú er klukkan 2.15 og ég hef verið að jólast og er nú að hlusta á Kvöldgesti og líður vel. Sko, mér skilst að risalamangið sé gott en Royalinn er auðvitað klassískur svo mér sýnist að þið fáið það besta úr báðum heimum:) Ekki slæmt.
Luf jú,Svanfríður.

Nafnlaus sagði...

möndlugrautur er sá besti, royal-inn kann ég ekki að meta..og ef í boði fyrir langa löngu er nokkuð öruggt að ég hafi beðið um ís..
já það er nokkuð ljóst að hjónaböndum fylgir aðlögun, ég td átti erfitt í byrjun hér úti að sætta mig við að éta aðfangadags máltíðina af pappadiski, sitjandi þar sem botninn komst fyrir í troðfullu húsi, og í þrjósku minni kaus frekar að vera ekki með í látunum. en nú í dag, elska ég þetta, að éta tamales innvafnar í kornhýði, af pappadisk og umkringd ættingjum eiginmannsins, það er jólalegt í mínum augum í dag! og hver hefði trúað því að ég gæti beðið eftir því að opna pakkana ekki fyrr en á jóladagsmorgun? enn eitt er ég taldi óviðsættanlegt en nú er það okkar jól.....þetta kallast víst aðlögunarhæfni.....
vona að þið njótið jólanna sem allra best og með aðstoð yndislegrar veftækni þá verðið þið bara í beinni útsendingu beggja vegna atlantshafsins, öll saman!!

Syngibjörg sagði...

Kæra Gulla! Óska þér og þínum gleðilegra jóla og þakka heimsóknir á falleg orð í vefbókina mína:O)

kv
Bjarney Ingibjörg

Syngibjörg sagði...

"og" falleg orð.....

Nafnlaus sagði...

Sæl Gulla,
Ég rakst á síðuna þína hjá henni Svanfríði, kunni ekki við annað en að skilja eftir mig spor.
Sendi ykkur bestu jólakveðjur og vona að þið hafið það gott yfir hátíðirnar. Bið að heilsa frænda :)
Kær kveðja,
Helga Rebekka

Nafnlaus sagði...

Sendum ykkur Jólakveðjur yfir hafið*

Guðrún & family
Florida

Nafnlaus sagði...

Elsku Gulla,
mig langar að þakka heimsóknirnar á síðuna mína á árinu og óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýja árinu..

Hlýjar jólakveðjur yfir hafið,
Linda (Svanfríðar vinkona)

Nafnlaus sagði...

Mikið fannst mér ljúfar vangavelturnar um jólahefðir, kannast líka við þetta úr mínum búskap. Er þó enn ekki alveg sátt við að borða soðinn saltfisk með soðnu káli og næpum, sem nágrannar okkar bjóða okkur í á aðfangadagskvöld, en það er samt svo notalegt að njóta samvistanna með þeim við arineld í eldúsinu klædd í margar peysur og buxur. Svona er Portúgal og öllu má venjast. Innilegar jólakveðjur til ykkar í blómahúsinu á Höfn, takk fyrir öll innlitin í kotið í Portúgal,
Þórunn

Nafnlaus sagði...

Ég óska ykkur innilega gleðilegra jóla Guðlaug mín. Þegar ég er að skipuleggja jólin með dætrum mínum og fjölskyldum þeirra þá verður mér svo oft hugsað til þeirra sem eiga börnin sín og barnabörn fjarri heimalandinu. En mikill er nú munurinn að hafa tæknina svona innan handar, það liggur nærri að þið getið borðað Royalinn saman, þó sitt hvoru megin Atlantshafsins sé.
Jólakveðjur í fjörðinn ykkar fagra,
Ragna.

Nafnlaus sagði...

Nú er komið að mér að grenja.

Sit hér með tárin í augunum, og finn til með ykkur mæðgum.

Gleðileg jól elsku Gulla og Brói.

Hafið það sem allra best.

Kv,
B

Nafnlaus sagði...

Gleðileg jól kæra Guðlaug!

Egga-la sagði...

Æi er nú ekki voða hrifin af þessum graut en þar sem hann tilheyrir jólunum og öllum öðrum á heimilinu finnst hann góður læt ég mig hafa það.

jólakveðjur frá okkur í Noregi,mamma og pabbi biðja að heilsa. Vonandi hafi þið það ljúft yfir hátíðirnar.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Mig langadi bara ad kvitta fra wahsington DC skohhh:)
Luf ju,Svanfridur...ps hvenaer kemur nyr pistill eiginlega?