mánudagur, 17. desember 2007

Flóð og flæði. Síðan birta.Skrítinn titill en ekki svo vitlaus. Ég hef þann háttinn á að setjast niður og "flæði", en hin undarlega og skringilega veðrátta setur allt á flot. Semsagt, allt á floti allstaðar. Jólin nálgast og mér líður mjög vel, en sakna litlu fjölskyldunnar í Ameríku, er svo úthverf að tárin renna við minnsta tilefni og bæta þannig á allt flæðið sem fyrir er. Minn betri helmingur segir þetta vera heilsubætandi og lengi lífið. Ég trúi honum og leyfi því tárunum að renna þegar þau koma, í þeirri trú að ég verði gömul og hress.( og Birta mín, ég er ekki bomm!)--- Það er annars skrítið hvað þessi árstími hrærir í tilfinningunum, væri ekki gott ef aldrei væru jólin. Þá væri ég örugglega tilfinningalega geld! --Síðasta vika í lífi tónlistarmannsins náði hámarki í gærkvöldi með yndislegum tónleikum.--Þeim stóru, sem segja manni að jólin eru á næsta leiti. Í troðfullri kirkjunni var allt það besta fram borið af öllu því góða fólki sem hér býr og sinnir tónlistinni. Afrakstur tónleikanna renna alltaf til góðra málefna í heimabyggð, og fáir láta sig vanta á slíkri stundu. Það ber að þakka. Næstu tveir dagar fara svo í "skrepperí" með tónskólabörn hingað og þangað um bæinn þar sem jólatónlistar er þörf, og karlakórasöngur hljómar svo á Þorláksmessukvöld í Miðbæ.-- Svo koma jólin.... en enga á ég rjúpuna, og það er skrítið...og ég sakna "ein er upp til fjalla"! Lambahryggurinn kemur bara í staðinn, en ég er ákveðin í að hafa rjúpuilminn í nösunum og þykjast. ---Helví.....refurinn, hann étur alltof mikið, miklu meira en við mannfólkið sem fáum þann hvíta bara einu sinni á ári. En allt gott um það, á einhverju verða þeir félagar krummi og rebbi að lifa. Ekki nægir það sem ég gef þeim af og til. ( þetta má víst ekki fréttast!) ---Í þessu svarta skammdegi, roki og lægðum sem yfir okkur ganga er gott til þess að hugsa að nú birtir brátt.... þess vegna set ég fallega mynd af blómaskálanum hér með langlokunni, vinkonu minni. Eftir tvo mánuði förum við að huga að skálanum og þá verður allt svo bjart. Með þeim orðum sendi ég birtu og yl á alla bæi.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bíddu-má ég þá ekki setja inn mynd af gúmelaðinu sem þeir félagar fengu í gogginn sl.jól?

Nafnlaus sagði...

Jú hjartans mín, það máttu. Manstu hvað var gaman? Mamma

Nafnlaus sagði...

Góður og hlýr pistill :)

Nafnlaus sagði...

ohhh ég sakna svo íslensks jólamánaðar, söngur hefur alltaf verið viðloðinn mína fjölskyldu (þó svo að ég sé laglaus samkvæmt sögnum yngri dóttur minnar) tónleikar, klæðast upp og þeytast út um bæ....
best er heima þorláksmessan, þá eru allir brottfluttnir komnir heim, allir hittast í bænum, það jafnast ekkert á við íslensk jól..ekkert!!góður pistill....

Kristbjörg sagði...

ég hlakka alltaf til að fara í Miðbæinn á Þorláksmessu og hlusta á Karlakórinn og hitta allt fólkið. Það er ómissandi hluti af jólunum fyrir mér.
Takk fyrir skemmtilega lesningu.
Ligg með hálsbólgu og hita og með í maganum því ég á eftir að kaupa nokkrar gjafir áður en ég kem heim. En gott að vera minnt á hvað þau verða nú samt yndisleg þó ég verði ekki tilbúin.

Nafnlaus sagði...

Já rjúpunum virðist vera að fækka....að vísu stefndi í að við gætum haft rjúpur í jólamatinn en það breyttist þegar ég fann rjúpnapokann á gólfinu fyrir framan frystikistuna í stað þess að vera ofan í henni....ýldufýlan var ekki góð!
Mikið rosalega var annars gott að sjá fallega sólskálann þinn, alveg nauðsynlegt í skammdeginu:)
Ég sendi ykkur mínar bestu jólakveðjur.
kv. Helga Sigurbjörg

Nafnlaus sagði...

HAhahhaha, þið eruð greinilega bara grenjuskjóður þið mæðgurnar.

Ég og mamma eigum okkar stundir, svo ég tali nú ekki um, þegar við bjuggum hvor í sinni heimsálfunni.

Auðvitað er í lagi, að gráta, og bara meinhollt.

Kveðja í Hornafjörðinn,
B

Nafnlaus sagði...

skemmtilegt að heyra hvað tónninn í ykkur mæðgum er svipaður í riti. eruð þið líkar svona að eðlisfari?

Nafnlaus sagði...

Takk þið öll. Baun, jú við mæðgur erum mjög líkar, bæði "innlit og útlit", en samt flottari en þátturinn. Gulla Hestnes

Ameríkufari segir fréttir sagði...

og það er sko ekki leiðum að líkjast, því get ég lofað ykkur.

Nafnlaus sagði...

þið mæðgur eruð allavega báðar með góð fyndnigen;)

Nafnlaus sagði...

Skil þig. Fór á tónleika í gærkvöldi og verkið var varla byrjað þegar tárin komu fram í augnkrókana. Hljómurinn í altflautinn er svo angurvær og yndislegur. Það þurfti ekki meira til. Reyndar er verkið sjálft líka sérlega fallegt; partída í a- moll eftir Bach. Eina verkið sem hann samdi sem einleik fyrir flautu.

Jólin eru eins og altflautan; falleg og angurvær. Þá er vel þegið að hafa einhvern sér við hlið sem maður getur tekið utanum.

Hafðu það alltaf sem allra best. Kv. Silja