fimmtudagur, 29. nóvember 2007

Hver les á?

Það þýðir víst lítið að blogga ef maður sinnir því ekki, en hér er ég öllum væntanlega til mikillar gleði! Tíminn líður og aðventan handan hornsins. Ég er jólabarn, og ef eitthvað er eykst það með árunum. Þrátt fyrir miklar annir tónlistarmannsins á þessum tíma vil ég halda í gamla siði, siði sem hafa fylgt mér frá barnæsku. Milli mjalta og messu VIL ég baka, þrífa og gera fínt, en næ þó ekki alltaf þessum markmiðum. Hvað um það, ég er þó búin að baka þær litlu og sætu, og ætla ég að finna mér tíma til að baka randalínur og brúna með hvítu! Jólapakkarnir fullir af gulli og gersemum eru farnir til Ameríku og alla leið neðst á hnöttinn.-- Í minni barnæsku voru reglur og jólasiðir í hávegum og það eru góðar minningar. Ekki man ég hvað ég var gömul þegar ég fékk að sofna á eldhúsbekknum rétt fyrir jól af því að mamma var að leggja síðustu hönd á jólakjólinn minn. Eitt hef ég þó aldrei skilið. Eldhúsgólfið heima var alltaf tekið í "nefið" á Þorláksmessu, og eftir þá aðgerð var blöðum dreift yfir til að halda því hreinu! Halló.... við bjuggum ekki í torfbæ! Í minningunni skautaði maður á blöðunum fram undir fimm á aðfangadag. Pabbi skreytti alltaf jólatréð og svo var stofunni læst þar til stundin rann upp, en við reyndum að kíkja á dýrðina gegnum skráargatið, alltaf án árangurs. Eftir matinn og mikla bið var komið að því! Pabbi las á pakkana en ég skottaðist með þá til réttra eigenda, það var mikið hlutverk og vandasamt. Hver fjölskyldumeðlimur opnaði einn pakka og allir skoðuðu gjöfina, og svo koll af kolli. Þetta var því langt kvöld og yndislegt sem lauk með bókarlestri í tandurhreinu rúmi. Svona vil ég hafa þetta enn þann dag í dag. Að vísu set ég ekki blöð á eldhúsgólfið og Brói sér ekki um jólatréð, það gerðum við mæðgur. Á síðustu jólum skreyttum við Eyjólfur Aiden jólatréð og var mér nokk sama hvar á greinarnar skrautið var sett. Svanfríður las á pakkana eins og í gamla daga og Eyjólfur skottaðist með þá. Allt í einu áttaði hann sig á því hvernig þetta fór fram og hóf sjálfur lesturinn... það var skondið...ótalandi maðurinn.... þannig að ég spyr ykkur nú... hver á að lesa í ár? Á Brói að lesa og ég að skottast, eða öfugt? Þetta verður snúið, það segi ég satt. Þakka þeim sem lásu og passið ykkur á myrkrinu.

10 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Mér finnst alltaf svo gaman að heyra um jólin þín sem voru og blöðin á gólfinu náttúrulega alger snilld.
En í ár finndist mér að þú ættir að skottast með pakkana því þá dreifir það huganum frá okkur hér:)Nei, væri ekki betra að pabbi myndi skottast (skottast pabbi einhverntímann?) og þú opnaðir bara alla? Það væri nú ekki leiðinlegt.
luf jú,Svanfríður.

Védís sagði...

Þið skottist bara bæði með pakkana fram og til baka Gulla mín.
Eru þetta í fyrsta skipti sem þið Brói njótið jólanna bara tvö saman?

Nafnlaus sagði...

Já Védís. Ýmist Svanfríður, ein og svo með sína fjölskyldu eða amma Gróa. Gulla Hestnes

Nafnlaus sagði...

ég er alin upp við hefðir og vildi sko ekki hafa misst af þeim, finn þó að það er erfiðara að viðhalda þeim hér svona fjarri heimahögunum þar sem hér úir og grúir af öðrum siðum, og það líka innan veggja eigin heimilis! heima hjá mér, las pabbi alltaf á pakkana, held það hafi ákveðist eftir einhverja tilraun þar sem einkadóttirnin las, og las bara á eigin pakka í belg og biðu og sinnti bara sjálfri sér, skildi það geta verið?
njótið jólanna í botn í rólegheitum....bestu kveðjur

Nafnlaus sagði...

ég sé bara fyrir mér prentsvertu á gólfinu...?

Nafnlaus sagði...

Dásamleg jól og aðventa. Allar þessar hefðir og huggulegheit...love it, love it, love it!
Á mínu heimili þótti mikill heiður að fá að lesa á pakkana; maður var nánist kominn í fullorðinna manna tölu, allavega að eigin mati. Mjög svo virðulegur upplestur. Eftir pakkaflóðið tóku mamma og pabbi við og lásu kortin; mér fannst það frekar leiðinlegt þá en gaman í dag...Að þessu loknu hreiðraði maður um sig með konfektkassa, mjólk og nýja bók í tanduhreinu rúmi...Nákvæmlega svona ætla ég að hafa jólin mín í ár; og svei mér þá, svo lengi sem ég lifi:-) Hlýjar aðventukveðjur úr Njarðvíkinni. Silja

Nafnlaus sagði...

Ja hérna. Dagblöð á gólfinu. Vona að það hafi ekki verið Morgunblaðið...

Tja, verðið þið ekki bara að skottast til skiptis? Það er nú bara sanngjarnt.

Ég hef jólahefðir móður minnar uppi. Finnst það dásamlegt.

Tel þær kannski upp í færslu, þegar nær dregur jólum.

Kær kveðja,
B

Nafnlaus sagði...

Ég sé ykkur fyrir mér sitja hlið við hlið í sófanum, Brói les á pakkana réttir þér þá og segir "Gerðu svo vel Gulla mín" og þú svarar á móti "Þakka þér fyrir Brói minn"

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus er Elfa

Nafnlaus sagði...

lart mikid