fimmtudagur, 2. desember 2010

Misjafnt hefst ég að ------ líka reiðist ég.



Fyrst voru há-klassískir tónleikar með þeim ungverska, og allt ætlaði um koll að keyra rétt sem á rokktónleikum væri, enda maðurinn fantafínn. Kvöldið eftir var gömludansaball með karlakórnum, allt önnur tónlist sem ég hef gaman af líka, en kýs þá klassísku. --- En þá að reiðinni: Horfði í kvöld á fréttir sem komu mér til að gráta. Gráta af meyrheitum, væntumþykju og yfirleitt af öllum tilfinningaskalanum. Ætla "þeir" virkilega að slá út heimahjúkrun langveikra bara? Er ekki allt í lagi með þessa svokölluðu ráðamenn sem ætla svo að eyða allt að 700 milljónum í stjórnlagaþing.( sem verður örugglega hærri upphæð, því "þeir" kunna ekki að gera almennilega áætlanir) Mér verður bumbult og fæ aukaverki í hnén. Ég skal glöð borga meiri skatta ef ég get verið viss um að svona þjónusta leggðist ekki af. Skömm sé þeim öllum barasta sem láta sér detta yfirleitt svona nokkuð í hug. --- Ég er reið, en það þarf yfirleitt mikið til.--- Nú er ég búin að ná mér niður, en ég ætla rétt að vona að "velferðarstjórnin" raði upp á nýtt. --- Á rólegri nótum er ég að upplifa aðventuna og öll ljósin í kringum mig. Jólasveinarnir komnir á sinn stað og sennilega fer Jesú og hans fólk blikkandi upp um næstu helgi. Hugurinn dvelur þó drjúgum hjá dóttlu minni og guttunum tveimur, eins hjá föðurnum sem er í aðstæðum sem ég vildi ekki vera í. Lifið lífinu fallega, og njótið þess að vera til með ykkar fólki, og ekki gleyma smáfuglunum þar til næst. Ps. Músarrindillinn er mættur í sólskálann. Mikið hvað var gott að sjá hann. Örugglega sá sami og dvaldi þar í fyrra.

6 ummæli:

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Ég er hætt að skilja þetta,ég hélt svei mér þá að þarna myndu þeir aldrei skera niður,vildi ekki trúa því.Svei þeim.
Myndirnar flottar og ég hefði svo sannarlega vilja vera á báðum tónleikunum...einhverntíman seinna;)

Nafnlaus sagði...

Ég er líka alveg bálreið yfir þessum málum, að skera niður í þessum málaflokki er bara ekki hægt eða það finnst mér ekki.
Gaman að sjá myndir, hefði verið gaman að hlusta.
Bestu kveðjur, Elsa Lára.

Ragna sagði...

Ég er líka í hópi þeirra bálreiðu. Ég horfði á þetta eins og þú með tárvot augu og varð svo reið að ég setti þetta strax inn á Facebook. Það væri nær að fækka þingmönnum um helming og skera niður um helming í Stjórnarráðinu þar sem alltaf er verið að smá bæta við flokksgæðingum sem þurfa að komast á ríkisjötuna. Ég hef orðið svo mikla skömm á þessu öllu saman.
En um annað í textanum þínum þá hefði ég nú ekkert haft á móti því að lenda á gömludansaballi hjá ykkur. Ég hugsa líka mikið til hennar dóttlu þinnar og fjölskyldu. Það vill til að hún er svo dugleg og stendur sig svo vel - en auðvitað á hún líka sínar erfiðu stundir og á eftir að finna fyrir söknuði um jólin.
Ég sendi ykkur góðar kveðjur og vona að aðventan verði ykkur ljúf og skemmtileg.

Íris Gíslad sagði...

Ég verð hissa ef þorri þjóðarinnar er ekki bálreiður út af þessu síðasta útspili ríkisstjórnarinnar. Þetta er hneysa.

Frú Sigurbjörg sagði...

Takk fyrir heilræðin, þau eru góð! Kær kveðja til músarinnar : )

Lífið í Árborg sagði...

Ég segi sama og þið, verð fokreið þegar ég heyri svona fréttir og verð svo aftur reið þegar ég heyri eða sé einhvern framámanninn koma fram og draga allt til baka. Þeir eru búnir að gera þetta svo oft, að fá fólk til að súpa hveljur, gamalt fólk, sjúklinga og foreldra með langveik börn, allir fá áfall við fréttirnar, sem eru svo dregnar til baka. Hvernig væri nú að ráðamennirnir færu að hugsa, áður en þeir henda svona ósköpum yfir fólk.