þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Vor vikulegi...

Heil og sæl öll í bloggheimum. Tíminn líður svo hratt að ég veit vart hvert hann fer. Í fjöldamörg ár hef ég t.d. alltaf verið búin að baka jólasmákökurnar á þessum tíma, en núna...úpps...tíminn hefur farið í annað, svo núna finnst mér ég eigi að fá kvíðakast yfir bakstursleysinu. Held þó að það sleppi, jólin koma, og ég kem til með að eiga nóg að bíta og brenna. Mest um vert er að geisladiskurinn er kominn í vinnslu og jólapakkinn í litla bláa húsið fer á næstu dögum, og hann er fullur af gulli og gersemum. Mér rann það svoooooo til rifja að heyra um bókarleysið hjá æðstasnúð að það fór allt á fullt að redda málum. Á Hornafirði er ekki bókabúð, bara "sýnishorn" í risaverslun...þoli það ekki....en ég á góða að í Reykjavík. Semsagt,bækur, og fleiri bækur á leið til Ameríku, og þegar við förum út í lok janúar fylli ég flugvélina af bókum! Annars finnst mér dóttir mín vera svo pennafær og oftast með málbeinið í lagi, þannig að henni yrði nú ekki skotaskuld úr því að semja svosem eins og 32 barnabækur. Bæði á íslensku og ensku! --Já, enn og aftur, tíminn líður hratt, svo hratt að allt í einu erum við "gömlu hjónin" orðin alein á jólum. Ég er ekki að kvarta, en hvert flugu árin, eins og mjólkurpósturinn Tevje söng svo fallega? Allavega ætla ég að vera glöð sem fyrr á jólum, og þau byrja ekki í IKEA, þau byrja hjá mér og mínum, og klukkan sex á aðfangadag verð ég meyr, og það er allt í lagi. Nú er ég hinsvegar ekki meyr og kveð því á kórnótum, því æfingin í kvöld sagði mér að allt væri í himnalagi. Með þessum orðum slæ ég botninn úr tunnunni og dríf mig í baksturinn!

9 ummæli:

Syngibjörg sagði...

Já tíminn líður hratt. Og núna í fyrsta sinn er ég tímanlega með það sem mig langar að gera fyrir jólin. Sendi t.d. engin jólakort í fyrra vegna tímaskorts. Læt það ekki koma fyrir aftur.En þú veist hvernig þetta er hjá okkur tónistarfólkinu - BRJÁLAÐ að gera í desember.
Og svo finnst mér að Svanfríður eigi hreinlega að setjast niður og semja svo sem eina barnabók.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

ég hlakka ekki neitt smá til að fá og sjá og koma við bækurnar...ohh-ég hlakka að ég held,meira til en Eyjólfur.
Jú,það er sko rétt hjá þér Ingibjörg að það er brjálað (vægt til orða tekið) að gera hjá ykkur í desember og því verður fólk eins og þið,að eiga fullt af góðu aðventubakkelsi, bara svona til að hjálpa ykkur í gegnum do-ið og fa-ið (uppáhaldið mitt,sko:)
luf,Svanfríður.

Nafnlaus sagði...

Mamma kom til mín í gær,og við vorum einmitt að ræða jólabaksturinn. Ég á eftir að ákveða hvaða sortir ég ætla að baka. Sennilega verða piparkökur fyrir dæturnar. Því fylgir flórsykursdrulla og kámerí.

Samt gaman.

Líst vel á bókagjafirnar.

Kv úr logninu...

B

Nafnlaus sagði...

Ekki klikka á Skilaboðaskjóðunni (sem núna er verið að endurútgefa), bæði bók og diski. Besta barnabók sem hefur verið gefin út á Íslandi í mjög mörg ár...

Nafnlaus sagði...

Við verðum þá samferða í bakstrinum. Alveg nauðsynlegt að vera búin að fylla stampana áður en aðventan gengur í garð.

Elísabet sagði...

æ, ég er bara ekkert komin í jólastuðpælingar...hmmm...kannski ágætt að byrja á piparkökubakstri, ilmurinn sá kemur mér alltaf í jólaskap.

Syngibjörg sagði...

Mikið er ég sammála Hildigunni.

Nafnlaus sagði...

Já tíminn flýgur sko....desember að skella á með öllu sem honum fylgir. Ég skellti í eina smákökusort síðustu helgi og þær kökur eru allar búnar, ætli að ég verði því ekki að baka meira um helgina. Það eina sem mig vantar eru góðar smákökuuppskriftir og skora ég hér með á þig Gulla mín að skella inn nokkrum góðum:)
Kv. Helga

Nafnlaus sagði...

Baka, baka hvað.... eldhúsið í ólagi og enginn ofn til staðar... ætli endi ekki bara með því að Jóhannes í Bónus reddi þessu fyrir mig þessi jólin hmhm ;)
En ég hlusta bara á jólalögin í staðinn og set ljósin í gluggana. Njótið aðventunnar...