miðvikudagur, 30. desember 2009

"Glatt skal á hjalla og gleymd skal hver þraut"

Allavega ætla ég að reyna að lifa áfram samkvæmt þessu textabroti sem Brynjólfur leikari söng svo listilega á síðustu öld. (Jamm, ég kann vísurnar og því orðin eldri en tvævetra) Ekki ætla ég að skrifa annál, en sennilega verð ég með langloku ef ég þekki mig rétt. Fæ gjarnan ritræpu þegar ég byrja. Jólin voru yndisleg og bestimann fékk t.d. tvær geitur á fæti í jólagjöf og ég fékk peysukjól. Bækur og fleira fallegt rataði undir tréð, en pakkarnir frá dóttlunni og hennar fólki svífa einhversstaðar um Evrópu. Þegar þeir birtast verða önnur jól með öllu tilheyrandi. Tónleikar allir afstaðnir og flygillinn lokaður þar til annað kvöld, en þá verður nýja árið sungið inn. --- Hafði það af með smákökuáti á dögunum að eyðileggja eina tönn, og kostar það skrúfu í "málbeinið" með öllu heimsins vafstri og útlátum. Semsé, handleggjum og fótum. ---Náðum líka að fylla olíubílinn minn af bensíni, en það reddaðist eins og svo margt annað í lífinu. Nú gengur nýtt ár í garð og á þeim tímamótum vona allir að það færi okkur frið, ró og gæfu. Ég óska þess líka öllum til handa, og segi enn og aftur: Ég vildi verða kóngur í einn dag. Kæru bloggvinir nær og fjær, ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs þar til næst.

miðvikudagur, 23. desember 2009

jól, jól skínandi skær.


Kæru vinir nær og fjær, við bestimann sendum innilegar óskir um gleðileg jól öllum til handa. Sveinkarnir á efri myndinni koma mér alltaf í gott skap, og fyrir prófarkalestur
var mér færð yndisleg matarkarfa sem er yfirfull af afurðum framleiddum í héraði. Jólakveðjurnar í útvarpinu eru í bakgrunni, og dóttlan mín er að undirbúa grjónagrautsveislu fyrir kanann. Njótið samverunnar og farið vel með ykkur þar til næst.

laugardagur, 19. desember 2009

Ameríkufarinn/staðreyndir.

Jæja, það kom þá að því sem enginn óskaði eftir, en mátti kannski búast við. Við erum heppin að búa ekki við herskyldu, sem ég ætla þó hvorki að mæla með né andmæla. Við erum öll friðarsinnar, og það er tengdasonur minn svo sannarlega líka. Nú reynir á litlu fjölskylduna í bláa húsinu, og ég trúi því að allt fari vel. Fáir þekkja dóttlu mína eins vel og ég, og ég veit hversu hún er megnug. Hún trúir oft reyndar ekki á styrk sinn, en að efast er bara gott. Þá anar maður ekki út í einhverja vitleysu. Dóttlan mín hefur alltaf barist fyrir sínu, og byrjaði hún á að berjast fyrir lífi sínu nýfædd, mikill og armur fyrirburi, en hún hafði það af. Bjartsýni er henni í blóð borin, og mikil fjarvera mín á fyrstu árum hennar fann hún alltaf eitthvað sem var gott. Þegar pabbi hennar (sem ekki kann á eldavél!) brasaði ofan í þau mat var það besti matur sem hún hafði smakkað og var alvöru! Stærðfræðin vafðist fyrir dömunni, en seiglan skilaði árangri. Allt sem hún ætlaði sér gekk upp með vinnu og trúfesti. Þegar dóttlan kynnti Bert til sögunnar leist mér ekki á í fyrstu, en ég treysti innsæi hennar og það hefur svo sannarlega skilað sér. Núna stendur hún/þau frammi fyrir stóru og ekki ásjálegu verkefni og auðvitað er kvíði í mannskapnum. Annað væri óeðlilegt. Dóttlan þarf að læra margt á skömmum tíma og standa sína plikt á sama tíma og Bert þarf að ljúka verkefni fjærri þeim sem hann elskar. Þetta kostar mikla fórn hvernig sem á það er litið, en ég hef trú: Trú á að þau standi sem fjölskylda saman að þessu verkefni með góðra manna hjálp, trú á dóttlu minni, trú á Bert og öllu því góða tengslaneti sem umvefja þau. Hjartað mitt blæðir þó. Mér finnst þetta ekki réttlátt gagnvart litlu snúðunum mínum, en það segir heldur ekkert um það í bókinni að lífið sé réttlátt. Ég bara vil að heimurinn sé góður, og ef ég gæti orðið kóngur í einn dag veit ég nákvæmlega hvernig ég myndi veifa sprotanum. Aðventan er tími okkar mæðgna gjarnan til tára, og ekki bætti þetta úr. En nú linnir "meyrheitunum" því bráðum hækkar sól og þá styttist í að Ameríkufarar komi í ömmu - og afahús. Bert er góður drengur og gegnheill, og ég veit að hann leggur allt í það sem hann er kallaður til. Komi hann heill til baka með guðsblessun. Þar til næst óska ég öllum gleðilegrar jólahátíðar með frið og gleði á öllum bæjum.

laugardagur, 12. desember 2009

Kjaftaskur/ lesist kjaft-askur!

Hvað gengur mönnum til að láta allt vaða, hversu ósmekklegt og ljótt það er, og það fyrir alþjóð? Halda þeir að þetta sé sniðugt og klókt og þeir svo fjandi klárir? Ef svo er: svei þeim. Ruglaðist inn á Ínn í gærkvöldi og það datt yfir mig... að ég held risaturn. Hélt á símtólinu en vissi ekki í hvern ég átti að hringja til að kvarta hástöfum. Bestemann telur að ekki sé borgandi símtal á svona gaura og ég trúði honum þegar mér rann reiðin. Reiðin í mér er ekki góð, bílífjúmí! ---Les oft blogg hinna og þessa og kommentin eru oft æði skrautleg, að ég tali nú ekki um dónaleg. Hvað gengur þessu fólki til? Mitt blogg er svo vinavætt og sjálfhverft að ég yrði fljót að fjúka ef einhver dirfðist að segja eitthvað ljótt. Ég lít á þennan miðil sem skemmtun frekar en vettvang til að senda fúkyrði út og suður. Aftur að Ínn, á Ingvi Hrafn þessa stöð einn og sér, er hann einráður og getur sagt hvað sem er? Tek það fram að ég er "hvorki né" með stjórnmálamönnum dagsins, en mér líkar ekki svona fúkyrði sem Ingvi Hrafn sendi blákalt í loftið svo rétt rifaði í augun. Áður en ég skrifa mig bálreiða bið ég alla góða vætti að vernda sjónvarpsstjórann, og sendi góðar yfir og allt um kring. --- Ps. Á jákvæðari nótum: átti frí í dag og gerði fullt, fór líka á Frelsinu og hitti fólk. Tónleikahrina í næstu viku og jólasveinarnir okkar koma líka í lítið blátt hús. Þeir bræður fengu "blækur" og hlaup frá Stekkjastaur. Svei mér þá, ég held að sveinki hafi keypt þetta hér á Höfn! Legg ekki meira á ykkur þar til næst.

þriðjudagur, 8. desember 2009

Á hvolfi?

Já, ég á það til að spila á hvolfi því þá horfi ég stundum í bláan himinn. Núna er hann hinsvegar svo asskoti svartur að mér líst ekki á þrátt fyrir jólaljósin. Okkur fer að vaxa sundfit með áframhaldandi veðurfari, og næst verður það ekki skutla sem keypt verður heldur kanói! Vaknaði við fuglasöng í morgun og illgresið vex sem aldrei fyrr. Þetta er jafn óeðlilegt og stjórnmálin í voru landi og hlýtur að vita á gos. Allavega segja þeir gömlu það, og mér hættir til að trúa þeim. ---Aðventan hér er lík og annarsstaðar á landinu með öllu tilheyrandi, og á þeim tíma er ég meyr í takt við dóttluna, en það rjátlast nú af okkur þegar jólin ganga í garð, en taka tvö hjá okkur hefst svo um áramótin. --- Skrítnar skrúfur við mæðgur.--- Það er líka margt skrítið í kýrhausnum ef vel er að gáð og færni er til, en hver nennir að spá í það svosem. En er ekki svolítið "kýrhauslegt" í litlu samfélagi að það skuli vera 9 tónleikar í desember, lestur úr nýjum bókum, stórhátíð hjá Sindra og stórmarkaðir um hverja helgi? Þá er örugglega ekki allt upp talið, en alls staðar er mannfjöldi. Skyldi það vera vegna þess að við Hornfirðingar erum ekki alveg á þjóðvegi 1, og höfum ekki td. Akureyri upp á að hlaupa og verðum að vera sjálfum okkur nóg? Góð pæling frá einni á hvolfi þar til næst.

laugardagur, 28. nóvember 2009

Loksins, loksins!

Já, og auðvitað öllum til gleði er ég ofar moldu. Eins og mér finnst gaman að fá innlit á síðuna er ég ekki nógu virk, en svo verður bara að vera. Lífið gengur sinn gang hér á bæ, og er mikið að gera. Væri ég barn væri örugglega búið að setja mig á ritalín, en mér líður vel með það sem ég er að bardúsa. Tónskólinn er 40 ára 1. des. og er töluverð vinna í sambandi við það. Eins og við kennararnir höfum ekki nóg með okkar fullu kennslu þá erum við með "kennaraband" hvar ég sit sveitt við píanóið og reyni að vera ekki tréhestur þegar kemur að "swing" tónlist! 4 kvöld í viku er svo kórastarf, og ýmislegt annað dunda ég mér við, en líf tónlistarmannsins á litlum stað getur verið krefjandi og ýmislegt komið uppá. Er þó búin að nota Frelsið eins mikið og ég mögulega get. Meðan kökurnar eru í ofninum skutlast ég smárúnt til að kíkja á jólaljósin og banka á eldhúsglugga hjá vinum og nágrönnum! (um helgar n.b.) Mikið hvað ég held að bæjarbúar verði þreyttir á mér þegar vorar! ----Við bestemann höfum sennilega/vonandi fengið vetrargesti. Músarindill hefur gert sig heimakominn í sólskálanum og lifir þar á löngu dauðum lúsum. Honum hafa verið færðar krásir sem hann lætur ekkert í, en meðan hann getur fundið einhverja lús og lifað á henni erum við glöð. Hann lét jólahangikjötið vera og þá þykir mér hann kresinn, því ketið það er sko ekkert slor. Úr Nesjunum altso, en Hornafjörðurinn er matarkista mikil, allt frá hatti ofan í skó! --- Er að lesa frú Vigdísi, konan er frábær en bókin ekki rúmvæn. Bestemann stakk uppá að ég tæki hana með á Frelsið til að nota nú tímann, en maðurinn veit ekkert hvað hann er að tala um, ég þarf að vera á jólaljósaútkikkinu! Á morgun tökum við Jesú og hans fjölskyldu upp í tilefni aðventunnar, og ég er alveg orðin sátt við þann gjörning eftir að diskóljósin voru tekin úr sambandi. Íslensku sveinkarnir ásamt þeirra hyski fara svo í glerskápinn, og eftir það ætla ég að rifja upp jólalögin fyrir kórana. Látið ykkur líða vel þar til næst.

föstudagur, 20. nóvember 2009

Ferð til fjár!

Jú, jú, við bestemann komumst til Reykjavíkur þrátt fyrir darraðadans í Öræfunum. Það er svosem ekki í frásögur færandi þar sem krákan ég er á ferð.
Mig langaði helst til að snúa við en Ástardrykkurinn og fleira lokkaði. Ég fyllist alltaf lotningu og tilhlökkun þegar ég fer í Óperuna. Þar hef ég aldrei orðið fyrir vonbrigðum með það sem ég hef séð og svo var líka núna. Við eigum þvílíkar listaperlur, perlur sem verða láta sér nægja óviðunandi aðstæður. Mikið hlakka ég til þegar söngvarar og hljóðfæraleikarar fá almennilegt hús til að vinna í. Ég hafði nokkrar áhyggjur að tónsprota hljómsveitarstjórans á tímabili þegar bífur kórmanna dingluðu niður í gryfjuna, en auðvitað slapp það, því listamennirnir þekkja hvern millimetra í þessu húsi. --Yfir einu er ég þó hugsandi.--- Þarf endilega að selja vín í Óperunni? Sessunautur minn hefði betur setið heima með sitt vín. Ég á bágt með að líða þegar fólk kemur of seint, sendir sms og vill hjálpa hljómsveitarstjóranum að hafa hemil á sínu fólki. Allt þetta og fleira truflandi gerði sessunauturinn og uppskar olnbogaskot frá mér tvívegis. Mér finnst leiðinlegt að siða til fullorðið fólk. -- Hildigunnur, ef þú rekst hér inn skilaðu þakklæti til Giannettu.---Við bestimann fórum svo í Hallarmúlann að skoða og mynda Völuspá dóttlunnar, og mikið hvað við vorum stolt af hnátunni, og vona ég að þessi frumraun hennar skili sér í fleiri verkum. --- Ýmislegt annað gerðum við, en mikið hvað ég var glöð að komast heim. Við utanbæjarmenn tölum gjarnan um stress í Reykjavík, en sennilega eru það við sem sköpum mesta stressið. Við ætlum nefnilega að gleypa allt á tveimur dögum í öllu kraðakinu og helgarumferðinni. En heima er best, sama hvar svo sem við búum, en hér líður mér best og ætla ekki suður fyrr en vorar! --Mikil annavika er á enda og ef veður leyfir á morgun ætla ég að "skutlast" eitthvað í mínum fjallagalla og kaupa bland í poka fyrir Ameríkuguttana mína. Farið varlega út í helgina þar til næst.

miðvikudagur, 11. nóvember 2009

Út um víðan völl

Ekki spennandi tiltill, en eitthvað verður barnið að heita. Ég vil þakka öllum innilega fyrir góðar kveðjur mér og Frelsinu til handa. Mér þótti vænt um þær. Flygillinn minn og skutlan eru einhver bestu kaup sem ég hef gert um ævina, og það liggur við að það sé það eina af veraldlegum gæðum sem ég hvað stoltust af að eiga. Ég nota Frelsið þegar tími og veður gefst, og finnst ég eiga heiminn. ---Lífið gengur sinn vanagang hér á bæ við allt sem er á könnunni, og mér finnst hún stækka með "ári hverjinu" eins og kerlingin sagði. Kennslan, kórarnir, oktettinn og önnur aukastörf taka sinn tíma, en samt er ég búin að baka nokkrar til jólanna! Komið bara í kaffi og sannfærist. ---Það tínist til í Ameríkupakkann og leggur hann í langferð eftir helgina. Bloggið er ekki alvont eins og margir segja. Ég náði eftir bloggleiðum í barna draumabókina + geisladisk fyrir litlu guttana vestra, og þakka ég fyrir kærlega. Þið sem hafa lesið þessar línur mínar muna ef til vill að ég þoli ekki vetrarferðir, ég virðist vera mikil óveðurskráka þegar að þeim kemur. Mér virðist þó að annað fólk geti skroppið til Reykjavíkur og hvert á land sem er bara ef það ætlar sér það. Hef ekki komið til Rvík. síðan í Maí en á morgun á að leggja í hann eftir vinnu. Óperan og fleira skemmtilegt. Veðrið hefur verið með eindæmum gott síðan ég ætlaði norður yfir heiðar fyrr í haust en komst ekki vegna ófærðar. Núna er spáin þannig að allt virðist fara í vaskinn. Ef svo fer verð ég fúl, og þá er ekki gott að lifa hjá annarri eins geðprýðismanneskju sem ég er. -- Halló, búin að redda fríi og á nýjan kjól! Krossið putta kæra fólk, mig langar í Óperuna, og mig langar að hitta vini, og mig langar í sextugsafmælið sem okkur bestimann var boðið í fyrir mörgum vikum. Tek mér í munn setningu á góðri íslensku: ef það "sé ekki", fer ég aldrei af bæ nema á sumrin. Kærust yfir og allt um kring þar til næst.

sunnudagur, 25. október 2009

Frelsi ég finn!


TROMMUSÓLÓIÐ HÆTT!
Það fór aldrei svo að ég eignaðist ekki skutlu, og ég er mjög hamingjusöm takk fyrir. Í gærmorgun var ég svo spennt að ég setti klukku til að missa nú ekki af neinu. Bestimann kom siglandi á henni heim ( á 15) og þá var ekki eftir neinu að bíða. Maður einn hér á Höfn hefur átt svona skutlu í nokkur ár og fór hann með mig í prufutúrinn, og í þessari himinsins blíðu gærdagsins fannst mér ég vera eins og fuglinn fljúgandi. Valli kom með rétta nafnið á skutluna: Frelsi skal hún heita. Fór svo í þriggja tíma "göngutúr" í dag, og sé bæinn minn í allt öðru ljósi, fer hægt yfir og tek eftir öllu. Hafi ég einhvern tíman gert góð kaup um ævina voru það þessi. ----Dóttla mín var náttúrulega yfir sig hrifin af kaupunum, en hefur sitthvað við útigallann minn að athuga. Kannski ekki skrítið hann er 18 ára! Mér þykir bara svo vænt um hann, og litadýrðin í honum hlýtur að fara að komast í tísku aftur. Ég er íhaldssöm þegar kemur að góðum fatnaði, þið ættuð bara að sjá íþróttaskóna sem ég nota við viss tækifæri. Þeir eru af dótturinni frá því hún var 13 ára, að ég tali nú ekki um úti- vinnufötin mín. Uppgjafa íþróttagalli af dótturinni frá unglingsárunum. -----Þetta eru semsagt fréttir dagsins, en líka þær að ég fór til vinnu á föstudaginn. Vonandi slepp ég við fleiri flensur. Það virðist vera alveg sama hvað etið er til að byggja sig upp og til varnar flensum. Akkúrat ekkert dugar. Á meðan við erum mannleg fáum við svona pestir, og þá er bara að taka því. Nú fæ ég sprautur á sprautur ofan og ætti því að vera vel varin, því Frelsið verð ég að nota þótt kaupið sé lágt. --- Húrra fyrir mér og þér.--- Á þessum nótum kveður Frelsisskutlan og bið ykkur um að fara varlega þar til næst.

fimmtudagur, 22. október 2009

Trrrrommmusóló!

Er ekki farin til vinnu enn og er að verða hálfgalin, en fylgist grannt með! Trrrrrrrrr þar til næst.

föstudagur, 16. október 2009

onjk, onjk?

Veit ekki, en ég er lasin og þar af leiðandi leið. Fékk lyf því blessuð berjasaftin dugði ekki, svo trúi ég alls ekki að jólin byrji í IKEA! Hef sennilega allt á hornum mér í dag, enda orðin Hornfirðingur. Góða helgi og farið varlega með kærri kveðju á alla bæi.

laugardagur, 3. október 2009

Það sem er títt.



Allt í einu fór sumarið og vetur gekk í garð, eða þannig. Á einum sólarhring gerðist það. Núna er búið að ganga frá skálanum fyrir veturinn, en rósir geta þó prýtt borðin hér fram eftir vetri.--- Af skutlumálum er það að segja að ég verð ekki skutla á vegum TR. Er ekki með "rétta" fötlun, ekki lömuð fyrir neðan eða ofan einhvern hryggjarlið o.sv.frv. og á bíl í þokkabót! Regluverkið, smáa letrið og orð fulltrúa stofnunarinnar er með ólíkindum, en ekki get ég deilt við dómarann. ( Búin að reyna) Ég tek bara lán hjá Alþjóðagjald..... (of leiðinlegt orð til að skrifa), kaupi mér skutlu og get ráðið litnum sjálf. Ykkur að segja verður hún rauð. Draumurinn verður að rætast. ---Ég er ekki mikið fyrir vetrarferðir en ákvað fyrir löngu að skreppa norður á Akureyri um næstu helgi að hitta skólafélaga. Veðurspáin framundan er hinsvegar þannig að ekki líst mér á'ann! Týpískt þegar veðurkrákan ég ætla að leggja land undir hjól.... en við sjáum til. Lífið er harla gott og sviðasultan heppnaðist vel takk fyrir. Kennslan og kóravinnan er á sínum stað svo ég get ekki kvartað, en er þó spæld yfir að borg dóttlu minnar fékk ekki Ólympíuleikana. Mikið hvað ég vildi verða kóngur einn dag, en þar til næst sendi ég ljúfar yfir og er glöð yfir að sjá að fyrrum góðir bloggvinir eru mættir aftur á ritvöllinn.

fimmtudagur, 17. september 2009

Fundin ber!





Þetta ætlaði ekki að ganga andskotalaust. Kennarinn kom og nú held ég að ég sé fær um að setja inn myndir, alein! Að vísu er röðin vitlaus, so be it.--- Hreinsunaraðferðin fylgdi mér úr föðurhúsum, en svona forláta pressa var ekki til. Bestimann tók sig vel út á henni og ég dásamaði svo herlegheitin í bak og fyrir. Núna er drukkin berjasaft í öll mál, og vei ef svínapestin vinnur á okkur. ---- Í dag er ég hamingjusöm---- er það svosem oftast, en nú hef ég von um að eignast skutlu. Bráðnauðsynlegt hjálpartæki fyrir fótafúna. Get verið meira úti og "brunað" um bæinn minn á 15 kílómetra hraða. Nú er bara að krossa fingur og vona að réttir aðilar standi við sitt. Tilvonandi skutla sendir ljúfar yfir þar til næst.

sunnudagur, 6. september 2009

Hvert fór hún?

Ég hélt mig vera búna að læra að setja inn myndir, en eitthvað hefur klikkað. Ef þið rekist á svona eins og nokkra berjabala á mynd í netheimum þá á ég þá. Saftin úr þessum berjum er sennilega sú flottasta ever, eða þannig.... þetta er sko í fyrsta skipti á ævinni sem við bestimann gerum saft. Hann dreif sig í berjamó í gær og afraksturinn sem svo sannarlega var festur á mynd er einhversstaðar á flakki. Nafna mín, dóttirin Ameríkufarinn er líka á flakki og festi ég samtal okkar á skybinu einnig á mynd. Er ennþá gapandi yfir tækninni, ég við eldhúsborðið mitt en hún í fjallendi miklu í risahúsi í annarri álfu. Andfætlingar hafa verið hér í tæpar tvær vikur, systkini mín sem ég er að kynnast á efri árum. Svolítið skrítið, en allt gekk vel. Það er rétt sem Baun sagði, maður velur sér ekki fjölskyldu. Ég valdi mína ekki, en um fimm ára aldurinn var ég endanlega valin, og það finnst mér gott. Ég var, og hef oft verið spurð hversvegna ég segi að Svanfríður mín heiti í höfuðið á mér, Guðlaugu! Þar sem ég er ekki að segja neitt leyndarmál, og hefur nú þegar komið fram í fjölmiðlum get ég alveg eins látið það flakka hér. Við ættleiðingu var búið að skíra mig Svanfríði Eygló. Misvitrir sem tóku mig fyrst fannst nafnið alls ekki hæfa og með allskonar brögðum breyttu þau því nafninu í Guðlaugu Gunnþóru. Eins og það passi eitthvað betur! Lá því beinast við þegar dóttlan fæddist að gefa henni þetta nafn, og finnst mér hún bera það með prýði. Nú eru haustlitirnir farnir að sjást og nóttin orðin lengri. Fyrsta heila kennsluvikan liðin og sú næsta byrjar á morgun. Kórarnir týnast svo inn hver af öðrum og líður með vel með þetta allt. Það eina sem er að "bögga" mig núna er að vera búin að týna helv....berjabölunum! Þar til næst.

föstudagur, 28. ágúst 2009

????

Ja það er spurning. Getur verið að það séu ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum eða er ég sú óskipulegasta sem um getur? Allavega þá flýgur tíminn og ég veit eiginlega ekki hvert hann fer. Síðan síðast hefur verið nóg að gera. Um verslunarmannahelgina skruppum við bestimann í smá ferðalag. Komum við á hóteli nokkru til að seðja hungrið, en vorum ekki á matmálstíma svo ekkert varð úr því. Eftir nokkra stund breiddist mikið bros yfir "andlit staðarins" og ég spurð/tilkynnt: Nú, þú ert bara með hækjur! --Hreint eins og ég hafi ekki vitað af því. --- Jamm, mér varð svarafátt, en var alveg komin að því að tilkynna andlitinu að það hefði gleraugu á nefinu. Óttalega hvað fólk getur verið eitthvað tvöþúsundogsjö! Einu sinni var mér meira að segja hrósað fyrir góðan píanóleik, og verandi á tveimur hækjum! Getið þið toppað þetta kæru vinir? --- Þrátt fyrir allt er ég ánægð með mínar hækjur og er byrjuð að kenna. Sumarið var yndislegt og er bara gott að byrja hina venjulegu vetrarrútínu endurnærð á sál og líkama. Ég skrifaði einhverntímann hér á síðuna að ég væri ættleidd og síðan tekin í fóstur. Blóðlega á ég alveg helling af systkinum sem ég þekki ekkert eða lítið, enda flestir búsettir andfætis. Núna eru hjá mér tvö af þessum ættboga og er það dulítið "eitthvað", en búskapurinn gengur þó mjög vel. Það sem ég á sennilega við er að ég vildi óska að fjölskylduflækjur væru ekki til í henni veröld, en mér verður aldrei að ósk minni í þeim efnum. Í æsku var ég aldrei lík neinum svo ég vissi til, en í dag veit ég að ég á mér marga tvífara, og svo er einnig um dóttlu mína. Tvífararnir búa bara í annarri heimsálfu. Þetta með eplið og allt það er sennilega engin vitleysa. --- Elskurnar mínar, á morgun, höfuðdag eru 33 ár liðin síðan við bestimann létum skíra dóttluna okkar, og hvort sem þið trúið því eða ekki heitir hún í höfuðið á mér! Þar til næst....

miðvikudagur, 19. ágúst 2009

tvær myndir




þetta er allt að koma.

enn og aftur


Er ein, kennarinn að fá sér kaffi.

Er í námi


Gengu svona lala

taka tvö


haha

prufa

bara að gá!

miðvikudagur, 12. ágúst 2009

yousavemefromIsave.

Flottur titill finnst ykkur ekki? Ekki fer ég nánar út í þá sálma, en mig langar í ró og reglu. Mig langar að þessu þvargi fari að ljúka svo landinn geti áttað sig á hvar hann stendur og haldið áfram. Í lífinu og öllu því sem því fylgir, einnig í blogginu og á fésinu. Bestimann er á fésinu, þökk sé Ameríkufaranum, eða þannig. Ég kíki stundum með góðfúslegu leyfi og hvað sé ég? Fullt af gömlum og góðum bloggvinum! Mér líst ekki á, ég vil fá þá til baka, allavega að hálfu. -- Ég á í nógu basli með að læra á græjurnar mínar þó svo ég fari ekki að eltast við allt hitt sem þessari dásamlegu tækni fylgir. ---Og nú spyr ég ykkur sem eruð svo dugleg að setja myndir inn í tölvu og þar fram eftir götunum, og ég VIL fá svar: --- Ég er búin að læra að setja myndir af myndavélinni inn í tölvuna, en þær koma sko ekki í réttri röð þar eins og þær eiga að gera. Þær eru réttar í myndavélinni! Ég kann ekki ennþá að setja myndir inn á þessa síðu mína svo mér finnst mér ekkert ganga í lærdómnum. Lærdómur? Staðreyndin er sú að ég hef ekki þolinmæði til að fikra mig áfram, ég verð að fá kennslu. Skyldi maður geta farið í bréfaskóla nú á dögum?! Hvað um það, lífið er gott og veðrið yndislegt. Sultan komin í krukkur, gestir komnir og farnir, andfætlingar væntanlegir og málaravinna vonandi framundan. ---Fékk í bakið á dögunum og ætlaði að vera svartsýn í svosem einhvern tíma, því ekki voru yousavefréttir og allt það uppörvandi. Lá fyrir framan sjónvarpið og góndi á kjellingar, hunda, kokka og annað lið sem vildi vinna og verða sem fallegast. Eftir smástund lá allt svo ljóst fyrir: svartsýnin fór veg allrar veraldar og ég skellihló. Mikið hvað hin mannlega vera getur verið vitlaus. Kannski er ég sú vitlausasta, því eitthvað á ég bágt með að verða svartsýn eða geta lært á tækniundrið sem heldur þó lífæðinni minni við Ameríku. Þar til næst sendi ég kærastar yfir.

miðvikudagur, 29. júlí 2009

Heil og sæl!

Hét mér því að gefast ekki upp á skrifunum, né að heimsækja aðra bloggvini. Ræð ekki við fésið, en fésið á mér brosir hringinn. Undanfarin svo svo mörg ár höfum við bestimann farið til Spánar og safnað orku fyrir veturinn. Áttum kost á því núna fyrir lítinn pening, en þegar til kom gat ég ekki réttlætt evrukaupin. Litli púkinn á öxlinni hvíslaði ekki einu sinni: þú skalt! Þess í stað drifum við okkur í gott ferðalag innanlands, og erum ennþá brosandi yfir því. Í tíu daga vorum við í steikjandi sól og brakandi blíðu, en sjaldnast á sama stað lengi, eða á sömu torfunni. Skilyrði í svona ferðalagi er að vera skemmtilegur og frjór og taka því sem að höndum ber með brosi á vör. Það var auðvelt. Kaldidalur á brokki var æfing fyrir vegi á vestfjörðum, en mikið var hann fallegur. Enduðum hjá elskulegum bróður og mágkonu fyrir vestan. Við vissum ekki hvort af öðru fyrr en fyrir 10 árum eða svo, en þar er gott fólk á ferð. Sigldum út í Flatey, keyrðum í Breiðuvík og að Látrabjargi hvar ég kíkti niður í óendanleikann og klöngruðumst niður í franskt kaffihús á Rauðasandi. Á þeirri leið taldi ég á mér tærnar fram og til baka og komst að því endanlega að ég hef 10 flottar tær. Mér var sagt að útsýnið værir stórkostlegt, og ég dreg það alls ekki í efa! Tókum með okkur smávegis af rauðum og hvítum sandi sem sómir sér vel í eldhúsglugganum við hliðina á þeim svarta sem við búum við á mínu horni. Alls staðar var okkur vel tekið og þjónustan hvar sem við komum var óaðfinnanleg, sem gerði okkur kleift að takast á við Kjöl. Það var eins gott að ég er ekki ófrísk því þá hefði farið illa, en fallegur var fjallahringurinn. Heyrðum svo í útvarpinu daginn eftir í manni sem var á sömu leið og við bölsótast út í Vegagerðina fyrir þennan óþverra veg! Halló....það hafði ekki ringt í margar vikur og þetta er jú fjallvegur sem vitað er að er VONDUR. Maður keyrir bara á 30-40 og syngur fjallalög. Með augun full af ryki og nefið af skít lentum við eftir dúk og disk á yndislegu gistiheimili á Flúðum, Grund. Mæli með því. Yndislegt viðmót og huggulegheit einkenna fólkið sem þar ræður ríkjum. Ég hef ekki í mörg ár verið eins uppnumin af því að ferðast um landið mitt eins og núna. ---Spánn má bíða.--- Maður veit ekki hverjir ramba hér inn, en þeir sem lesa og hugsanlega hýstu okkur og fóðruðu til líkama og sálar eiga miklar þakkir skildar. Lífið semsagt leikur við hvurn sinn fingur og smitar okkur bestimann. Þar til næst kveður frúin með fallegu tærnar.

mánudagur, 6. júlí 2009

Eldhress og kát.

Ameríka tók vel á móti okkur bestamann, en mikið helv.... var erfitt að kveðja. Kveðjustundir eiga að vera bannaðar með lögum. Fólk hér og þar kepptist við að spyrja hvað okkur langaði nú til að gera, en svarið var alltaf það sama: vera með fólkinu mínu, og það gerðum við. Tókum einfaldlega þátt í lífinu í litla bláa húsinu þar sem hjartarými er nóg. Get varla skrifað hvað tíminn var yndislegur án þess að fá þennan klump í hálsinn, svo þið sem ráfið hingað inn verðið bara að gera ykkur það í hugarlund. Eitt get ég þó sagt og skrifað með sann að öllum líður vel og sjaldan hefur hún dóttla mín verið eins falleg og nú, að ég tali nú ekki um snúðana mína. Bert er góður og gegnheilt fallegur maður og þar hafið þið það.--- Eins og ég lofaði í síðasta pistli kom ég með sól og hlýindi með mér heim, og vona ég að sem flestir landsmenn hafi fundið fyrir því. Á þeirri viku sem liðin er hefur margt gerst: Spilað við jarðarför, spilað tónleika, flogið til Reykjavíkur að morgni og keyrt heim samdægurs, brotið heilann um hversu lengi hnén mín endast, þvegið þvott, dúllað við rósir, skemmt mér á Humarhátíð og fengið góða gesti. Nokkuð vel af sér vikið að mínu mati. Inn á milli reyni ég svo að læra á fínu græjurnar sem við fjárfestum í í henni Ameríku. Viðurkenni hér með að ég er hálfgerður klaufi. Þóttist góð í gær við að hlaða myndum inn á fínu tölvuna, en við nánari skoðun var ég búin að setja þrisvar inn sömu myndir! Þá fór nú í verra við að eyða einhverjum slatta, ekki kann ég ennþá að eyða öllu í einu svo ég dúllaði mér í langan tíma við að eyða einni og einni mynd, og er alls ekki búin! Er mér við-bjargandi? Þarf meiri kunnáttu og sennilega kennslu hjá einhverjum sem er þolinmóðari en ég. --- Hér til Hafnar kom nýtt skip í flotann í síðustu viku. Annað skipið í sumar. Í tilefni þess var hér mikil hátíð sem nánast tengdist við Humarhátíðina. Um borð í flotanum hjá fyrirtækinu vinna um hundrað menn, fyrir nú utan alla þá sem vinna í landi. Ekki sást neitt um þetta í fréttum, né heldur um allt það jákvæða sem er að gerast í bæjarfélaginu. Svo var haldin Humarhátíð sem var mjög vel sótt og ótrúlega margt í boði fyrir gesti og gangandi. Einhverjar ryskingar voru eina nóttina og það rataði svo sannarlega í fréttirnar. Ég get ekki kyngt því að neikvæðar fréttir selji en það sem jákvætt er sé leiðinlegt. Um allt land er margt jákvætt að gerast, en fréttamenn nánast hundsa það. Fari það og veri. Á þessum nótum þakka ég pent fyrir mig og eftirlæt öðrum um leiðinlegheitin því ég ætla að einblína á það jákvæða. ----- Ps. Svanfríður mín, láttu mömmu gömlu ekki vera duglegri en þú í bloggheimum! Þar til næst.

miðvikudagur, 24. júní 2009

Nokkuð góð!

Þessi dagur hefur varla verið mönnum bjóðandi veðurfarslega séð. Nú er klukkan 10 að kvöldi og hitinn er tæp 30 stig. Ég lofa ykkur því að koma með eitthvað af þessum stigum og sól í húfunni minni á laugardaginn. Lærdómurinn gengur bara þokkalega takk fyrir, og er ég búin að læra að setja myndir af nýju myndavélinni inn á nýja lappann! Þrátt fyrir þessa nýtilkomu nýjungagirni mína ætla ég ekki að skipta bestamanni út. Tíminn líður trúðu mér, og verður erfitt að slíta sig frá fólkinu sínu, en allt tekur enda og því verðum við að kyngja. Hittumst heil á landinu þar sem moskítóflugur þrífast ekki. Þar til næst.

laugardagur, 20. júní 2009

America´s calling!

Héðan er sko allt gott að frétta, og ég er að æfa mig á nýja lappanum mínum! Er að verða svo helv... tæknivædd, og hvað gerir svo fólkið mitt? Þau hlæja sig máttlaus yfir tregðu minni í lærdómnum. Ég á nefnilega líka flotta myndavél sem þarf að læra á! Sá hlær best sem síðast hlær. Elskurnar mínar, þið sem kíkið hér inn kommentið sem aldrei fyrr, og segið mér að ég sé góður tækninemandi. Annað er í góðu lagi og ég elska snúðana mína. Þar til næst úr 30 stiga hita.

miðvikudagur, 3. júní 2009

Það er hugur í mér.

Takk fyrir innlitið í síðasta pistli. Þótt ég sé að skrifa á þessa síðu fyrir mig þá er alltaf gaman að fá heimsóknir undir nafni. Fyrir viku lauk ég vetrinum endanlega með tónleikum Gleðigjafa á Egilsstöðum. Yfir 30 söngmenn í eldri kantinum sem eru hetjur í mínum huga, það er ekki vællinn á þeim bænum þótt mikið sé að gera og dagurinn langur. Ofan í kaupið syngja þau eins og englar, og er ótrúlega fallegur hljómur í þeim þrátt fyrir aldurinn. Sá yngsti er 63 ára en sá elsti að nálgast nírætt. Ég ætla sko rétt að vona að ég hafi þennan kraft og þessa elju þegar ég verð stór, því mig grunar að söngstjórinn hafi verið sá eini í hópnum sem fór ekki úr náttbuxunum daginn eftir, og það á besta aldri! --- Gott að vera stundum í þeim röndóttu. ---- Eftir þetta vetrarbrölt var komið að því að ná í vorið, og það sótti ég í Hveragerði, sem sé hana Svanfríði mína. Í leiðinni kippti ég nokkrum fallegum plöntum með í rósaskálann. Við mæðgur áttum yndislegan keyrsludag til Hafnar, og það bara á 90! Þetta heitir sparnaðarakstur á alla vegu. Engin sekt og eyðslan á nokkuð stórum bíl 6.2 lítrar. Ég var alsæl en bestimann og restin af familíunni hló og hélt að við mæðgur hefðum farið norður fyrir. Hvað þetta lið getur verið vitlaust! 3 dagar með dótturinni liðu allt of hratt auðvitað, en nú var enginn grátur því við hittumst aftur eftir viku. Ég breiddi sængina yfir hana á kvöldin og bað fallega um að allar góðar vættir væru með henni og litlu fjölskyldunni í bláa húsinu. Ég finn að svo verður. Héðan er því allt gott og veðrið ótrúlegt. Bærinn er fullur af fólki og allir hafa nóg að gera. Rósaskáli frúarinnar er flottur og garðurinn vel gróinn. Ég snudda hér og þar og hjálpa bestamanni við hans garðyrkjustörf því allt verður að vera fínt áður en við förum vestur um haf. Þá fljúga húsflugurnar mínar inn og við segjum bless þar til næst.

þriðjudagur, 19. maí 2009

Hugleiðingar um strák.

Fyrir nokkrum árum fékk ég nemanda sem langaði að læra á hljóðfæri. Ég var óörugg, og nokkuð viss um að ég gæti ekki staðið undir væntingum hans. Samt fór það svo að við byrjuðum. Þá var ég búin að undirbúa mig, að ég hélt, en bara að einu leyti: Ég betrekkti einn veginn í stofunni með öllum nótnatáknum sem þurfti til að veggurinn fylltist! Hugsaði með mér að þetta væri gott fyrir alla nemendur. Stráksi kenndi mér margt, hann t.d. sagði mér hvenær ég var orðin svöng, ég lærði að kúrekaglás væri bragðgóð, hann kenndi mér allt sem ég gat innbirgt um Malasíubrautina, hann kenndi mér hreinskilni og hrekklausa gæsku, og hann þoldi mig ekki væri ég í rauðum fötum í kennslustund.-- Það var altso vont.-- Í nokkur ár kom vinur hans alltaf með honum, en beið frammi og þeir röltu svo saman til baka. Eftir fyrstu önnina kunni stráksi allt betrekkið utanbókar! Sjónminnið alveg brilljant, takturinn er honum í blóð borinn og gáfurnar í besta lagi. Stráksa líkar ekki þegar ég veikist, eðlilega, því þá hleypur kannski einhver annar í skarðið ef vel liggur á mönnum. Svo var komið að fyrstu tónleikum þar sem minn maður lék einleik. Ég sat svona til hliðar með smá hnút og var til taks. Í dag er ég ennþá á hliðarlínunni, hnútlaus að mestu, en stráksi þarf mín varla með. Sér einfaldlega um hlutina sjálfur. Nú er strákurinn minn orðinn jafnhár mér og kemur alltaf einn í tíma. Búinn að segja vininum upp! Hann þolir mig ekki ennþá í rauðu, og er ég farin að hallast að því að sá litur einfaldlega klæði mig bara alls ekki. (fyrir utan rauðu bomsurnar!) Núna á dögunum spilaði þessi nemandi minn fyrir bláókunnan prófdómara og gerði það með bravör, og stefnum við á grunnpróf á vetri komanda. Af hverju er ég að skrifa þessar hugleiðingar? Jú, þessi vinur minn og nemandi hefur sýnt það og sannað að þrátt fyrir einhverfu getur maður gert það sem kennarablókin taldi í upphafi nokkuð ljóst að ekki væri hægt. Sem betur fer erum við ekki öll eins, en við eigum að geta lifað og leikið saman. Þar til næst kveð ég úr hornfirsku vori.

sunnudagur, 17. maí 2009

Skólalok og fjör (ur)

Síðan síðast hefur mikið gengið á. Próf og glæsileg skólaslit með óvissuferð kennara á eftir. Hér á Hornafirði er boðið upp á ýmislegt til afþreyingar, og þar á meðal fjöruferðir. Ég lét mig hafa það og skemmti mér sennilega betur en allir aðrir. Það er nefnilega svo að það sem flestir telja auðvelt getur vafist fyrir mér. Skemmst er frá að segja að ég fór í litlum báti yfir fjörðinn, og lærði á fjórhjól sem ég keyrði svo alveg sjálf! Ég var afar varkár en komst samt það sem hinir komust þótt færi aðeins hægar yfir. Yndislegt veður, sól og regnbogi þótt engin væri/kæmi rigningin, jöklahringurinn óendanlega fallegur og krían í þúsundatali. Þarna á fjörunum átti ég heiminn, og þið sem hingað komið verðið hreinlega að upplifa þessa stemningu.--- Í gær fór ég svo með oktettinn minn í tónleikaferð austur á land og heppnaðist allt mjög vel, og þá er bara eftir að klára upptökur með þeim. Síðustu tónleikar þetta vorið verða svo með Gleðigjöfum 21. maí og tónleikaferð þeirra 26. maí. Ég held svei mér þá að ég loki hljóðfærinu eftir það og taki til við að huga að Ameríkuferð okkar bestamanns. Þetta er að verða gott þennan veturinn.--- Smá hugleiðingar um fésið.... Bestimann er þar en stundar fyrirbærið lítið, það er helst ég sem stelst til að kíkja á hana dóttlu mína, en svona örskeytaháttur á ekki við mig, og ætla því að halda mig við pistlaskrif af og til. Hvort einhver nennir að lesa er svo annað mál, en vænt þykir mér um heimsóknirnar. Þar til næst kveð ég úr undurblíðu og segi enn og aftur: það var fjör á fjórhjóli á fjörunum.

mánudagur, 11. maí 2009

Heill í hjúskap, happ í búskap!

Á lokadaginn,11.maí fyrir 35 árum hófum við bestimann búskap. Ekki var nú hreiðrið stórt eða ríkmannlegt af veraldlegum gæðum, en okkur leið vel. Smám saman óx okkur ásmegin, en á þeim árum varð að fara sparlega með. Þá varð maður helst að eiga fyrir hlutunum, nú eða geta fært sönnur á því að við værum borgunarmenn fyrir því sem kaupa átti. Gleymi því aldrei þega ég fór ein og sér til bankastjórans hér á Höfn og bað um smálán, alveg titrandi á beinunum. Þá vildi bankastjórinn vita til hvers ég ætlaði að nota peningana. Þegar ég stundi upp úr mér að mig vantaði píanóbekk fékk ég umsvifalaust það sem ég bað um. Fyrir allt streðið er ég óendanlega þakklát, og þakklát fyrir góða fjölskyldu.--- Á föstudaginn fórum við í tónleikaferð norður í land og lentum í arfavitlausu vetrarveðri og ófærð! Eftir 8 tíma þvæling sungum við tónleika sem gengu glimrandi. Laugardagstónleikarnir voru ekki síðri,bæði húsin góð og frábær hljóðfæri. Móttökur allar sem best verður á kosið fyrir utan norðlenska stórhríð. Næsta ferð verður á laugardaginn og þá hreinlega heimta ég gott veður af þeim guði sem ku stjórna veðrinu!--- Nú fer að styttast í annan endann á þessum vetri og verður gott að komast í frí. Dóttla mín kemur bráðum og svo erum við bestimann til 35 ára flogin. Þar til næst bið ég um gott veður hvarvetna.

fimmtudagur, 7. maí 2009

Farin!

Altso í tónleikaferð norður í land þar sem veturinn er ennþá. Brrrrrr. Góða helgi allesammen þar til næst.

fimmtudagur, 30. apríl 2009

Ha ha!

Ég er dásamleg, nú ýtti ég á publish post rétt eina ferðina enn. Ætlaði að að ýta á save now! Svo nú ýti ég á réttan takka. Save now. Búið og gert. En það er semsagt gott að búa í Hornafirði. Við besimann vorum að skríða heim úr pottaferð undan jökli, og náttúran þar er undurfögur. Hjónin í Hoffelli hafa gert flotta aðstöðu og eru með nokkra potta sem eru með vatni úr iðrum jarðar. Pottarnir eru undir fallegu klettabelti og eru kerti út um allt. Ekkert heyrist nema fuglasöngur og hjartaslögin í manni sjálfum, svo nær náttúrunni er varla hægt að komast. Nýja sundlaugin sem vígð var í fyrri viku hefur allt sem hver getur óskað sér, en þessa algjöru kyrrð er auðvitað ekki að hafa inni í miðjum bæ. Það er því ekki að ástæðulausu að ferðafólk hvaðanæva sækist eftir kyrrðinni undir jökli. Þrátt fyrir kyrrð og ró í bænum mínum er mikið um að vera og margt fólk á ferli. Menningin blómstrar og hver hefur nóg með sitt. Semsagt, gott mannlíf. Eftir lestur síðasta bloggs dóttur minnar langar mig að koma með smá mömmuvinkil. Hjartað mitt er stórt af ást og aðdáun. Ást á því hversu heil hún hefur alltaf verið, ást á því hversu óumdeilanlega hún er staðföst í því sem hún tekur sér fyrir hendur. ( Hún kann að mótmæla, en mömmuvinkillinn veit betur!) Hverjum auðvitað þykir sinn fugl fagur og allt það, en margt af því sem dóttla mín hefur gert hefði ég sennilega ekki haft kjark til sjálf. Bara það eitt að flytja í aðra heimsálfu með lítinn strák í poka framan á sér til að finna lífið er ekki skref sem allir þora að taka. Þetta á náttúrulega við um fleiri, en þetta er það sem að mér snýr. Þar tók sú stutta stærsta stærðfræðipróf lífsins og er kominn upp í einkunn 8! Hún nær tíunni seinna. (er í því að prófa ungmenni þessa dagana) Til viðbótar við litla strákinn í pokanum er kominn annar, ekki síðri. Þeir eiga góða foreldra sem örva þá og elska, og þeir eiga ömmu og afa sem fara mjög fljótlega til Ameríku. Áður en af þeirri ferð verður á ég eftir próf og skólalok, fjórar tónleikaferðir, og nokkra tónleika í heimabyggð. Tíminn verður því ekki lengi að líða. Á milli mjalta og messu förum við bestimann svo í jöklapottana og slökum á. Þar til næst kæru vinir.

Undir jökli.

Ég segi eins og maðurinn: Það er gott að búa í Hornafirði, eða sagði hann kannski í Kópavogi?

miðvikudagur, 22. apríl 2009

Dugleg ég.

Bara alltaf í blogginu? Hér á bæ er ró og friður, allar þyrlur farnar en krían leggur til sinn skerf. Sá skerfur er þó öllu ómþýðari og segir manni að sumarið sé handan hornsins. Annað kvöld kemur það svo, því karlakórinn Jökull heldur þá vortónleika sína og syngur inn sumarið. Krossið putta fyrir frúna, en hún er að spila inn 34. sumarið með þeim. Gleðilegt sumar allir sem kíkið hér inn og takk fyrir veturinn. Þar til næst með bros á vor.

sunnudagur, 19. apríl 2009

Ja hérna

Mikið hvað menn geta verið vitlausir. Halda þeir að hægt sé að sigla að bryggju á litlum stað þar sem höfnin er lífæð bæjarbúa og láta sem ekkert sé? Við höfnina hér og á fleiri smærri stöðum þekkja allir bátana við bryggjurnar. Svona kújónar þurfa því að læra meira til að ekki komist upp um strákinn Tuma. Bjánabrækur og glæpamenn eru hvergi velkomnir. ---Annars er lífið gott, en hefur verið nokkuð erilsamt og sigli ég hraðbyr inn í aðra samskonar viku. Próf og tónleikar einkenna hana ásamt sumarkomunni, og vonandi verða allar þessar þyrlur farnar á morgun því þær trufla fuglasönginn. Já, vitleysan ríður ekki við einteyming. Þar til næst.

miðvikudagur, 15. apríl 2009

hún er falleg og heitir Dell!

Mikið er ég glöð, hreint eins og lítill krakki á jólunum. Þrátt fyrir efnahagshrun landans fjárfestum við bestimann í nýrri tölvu. Hún var sett upp í kvöld og er svo hraðvirk að ég hef varla undan. Munurinn er eins og dagur og nótt. Dóttir mín var svo falleg og skýr á skybinu að mér fannst eins og gæti snert hana. Nú er bara að skrúfa af annan fótlegginn og borga dýrðina með brosi á vör. Ég skemmti mér konunglega á dögunum þegar Svanfríður setti bestimann inn á fésið...tölvugúrúinn a tarna. Nú er bara að fylgjast með hversu duglegur hann verður að "uppdeita" vinina! Ég kíkti yfir öxlina á mínum manni og er eiginlega hálf utangátta með þetta allt saman og finnst bloggið miklu skemmtilegri tölvu-samskiptamáti. Held ennþá að fésið sé vinsæl bóla sem hjaðnar þegar annað og betra býðst, en hvað veit ég?. Ég veit bara að ég á nýja flotta tölvu sem heitir Dell, og er að skrifa pistill númer 102! Lítið var en lokið er...þar til næst.

fimmtudagur, 9. apríl 2009

Þegar kötturinn sefur fara mýsnar á stjá.

Ég vil þakka öllum hlýjar kveðjur mér til handa á afmælisdaginn. Mér þótti vænt um þær. Ég fékk pakka og karlakórinn birtist hér í öllu sínu veldi og söng sig inn í hús, og þrátt fyrir 34 ár með þeim koma þeir mér enn á óvart.-- Bara flottir.-- Afmælispakki nokkuð stór kom frá Ástralíu og er ég enn að hlæja að innihaldi hans. Úr honum ultu 29 loðin pennaveski með löngum eyrum og fallegum augum. Eitthvað voða mjúkt og fallegt.---29, segi og skrifa. Eldhúsborðið varð fullt. Gefandinn fór á markað og keypti upp lagerinn, en Kínverjinn sem rekur markaðinn taldi frúna brjálaða. Þetta er sko húmor í lagi. Þann 16. apríl mæti ég svo með dýrðina á leikskólann, en þaðan útskrifast 24 börn í vor. Hvert um sig fær mjúkt pennaveski frá OZ til að fara með í 1. bekk. Margt annað fallegt kom úr kassanum, en ekkert sem toppaði veskin. Það sem af er páskafríi hefur liðið ljúft, og ber hæst að rósaskálinn er tilbúinn til notkunar. Vessgú, allir boðnir í kaffi! Hef sofið vel og lengi, lesið, eldað góðan mat og spilað töluvert á píanóið. Lífið er ljúft. Í gær þá endanlega gáfumst við bestimann upp á þessari tölvu. Hún er orðin gömul og frýs reglulega. Í gær fraus hún 7 sinnum, og þegar við tölum við dótturina á skybinu þá frýs gjarnan og Svanfríður mín verður ósköp eitthvað teygð og frosin. Það er of mikið af því góða, og þykist ég góð ef þessi pistill skilar sér. Ný tölva var keypt í gær, en hún verður ekki komin í gagnið fyrr en eftir páska. Vonandi get ég lært á græjuna.-- Nú eru margir út og suður og enginn að lesa blogg, þessvegna fannst mér titillinn svo vel viðeigandi.-- Farið varlega hvar sem þið eruð og njótið páskanna. Þar til næst.

föstudagur, 3. apríl 2009

Ég er hrútur!

Sem hrútur ligg ég ekki á þeirri staðreynd að ég á afmæli 4. apríl. Til hamingju ég sjálf! Ég er 58 ára og er stolt af hverju ári og hverju gráu hári. (sem ég fel þó undir strípum) Að vera fæddur í hrútsmerkinu er bara gott, en hann er ekki allra og er nokkuð frekur. Fer þó betur með frekjuna eftir sem árin verða fleiri og umburðarlyndið verður meira. Þó er ljóður á þessu merki ef marka má alfræðibók um þetta annars ágæta stjörnumerki. Þar stendur orðrétt: "það er einkennandi fyrir konur í hrútsmerkinu að hafa eymsli í hnjáskeljum" Í stuttu máli hlýtur þetta að vera sannleikanum samkvæmt, því báðar mínar eru farnar. Segið svo að ekki megi trúa á alfræðisannleikann! Það er gott að eiga afmæli og vera sáttur við allt og alla. Ég á góðan bestamann, góða dóttur og tengdason og 2 yndislega ömmustráka. Þessi djásn mín sjáum við bestimann innan tíðar. En nú fer ég fram á að þið þarna úti syngið fyrir mig afmælissönginn það hátt að hann heyrist til Hornafjarðar. Þar til næst.

sunnudagur, 29. mars 2009

ég sem ætlaði... og ætla!

Ég er ekki að standa mig í skrifunum, en ég ætla ekki að gefast upp. Mér finnst gott eftir fjögur og stundum fimm kvöld í viku með kóra að vinda ofan af mér og fara rúnt í tölvunni. Dáist að þeim sem skrifa þétt og er dugleg að fylgjast með. Síðasta vika einkenndist af söng og meiri söng, kennslu og að læra músík. Mér telst til að ég sé með um 60 lög í vinnslu, og verður páskafríið því kærkomið, ætla að nota það vel, en líka til að slugsa. Eftir það hellist allt yfir og þá er betra að kunna skil á vinnunni.--- Hef ekki komist hjá að heyra fréttir vikunnar og eftir þeim að dæma eru allir flokkar að vinna, og það stórt. Nú á semsagt að fara að taka á málum! Veit ekki hvað þetta blessaða fólk hefur verið að gera upp á síðkastið, en mér finnst þetta allt saman minna á lélegan farsa þar sem varla er hægt að glotta út í annað. Farnist þeim vel, en ég er munaðarlaus, pólitískt séð. Kannski kemur þetta allt með hækkandi sól. Sólin er þó farin að hækka sig og farfuglarnir sungu fallega fyrir hretið sem nú ríður yfir. Sólin segir mér að ég þurfi að fara að taka til hendinni innanhúss, tuskur og svoleiðis. Kannski geri ég það í páskafríinu, eða alla vega fyrir "ammlið" mitt, og þá verðið þið að syngja svo hátt að það nái í góða bæinn minn. Þar til næst..í guðs friði.

miðvikudagur, 18. mars 2009

Af gefnu tilefni...

Las bloggfærslu hjá einni af "útrásardömunum" í Ameríku á dögunum. Sléttubúinn Stella hefur alltaf eitthvað að segja og rann upp fyrir mér við lesturinn mikið "ljós", eða þannig. Dóttla mín bætti svo um betur, og því er þessi upprifjun. Í mínum kolli er hún bráðfyndin, en það er misjafn smekkur mannanna, ég tala nú ekki um þegar klósett og alls kyns óhöpp eru annars vegar. Fyrir nokkrum árum fór ég í tónleikaferðir til Ítalíu með sitt hvorum kórnum. Þekkti lítið til Reykjavíkur kórsins en small afar vel í hópnn frá fyrsta degi. Við héldum t.d. tónleika í Markúsarkirkjunni í Feneyjum og var það mikið "upplifelsi", en illa gekk mér að kveikja á orgelinu sem var nota bene í mikilli hæð frá gólfi guðsmannanna. Með lagni tókst það í tíma og allt fór vel. Á þeysireið milli tónleikastaða þurfti oft að stoppa á vegasjoppum og leyfa fólki að fara á klósett. Þar lærði ég ýmislegt. Þetta var ekki auðvelt því ég er afar viðbrigðin og ekki frá á fæti. Þegar ég var búin að læra að skrúfa frá krana á einum stað var það allt öðruvísi á þeim næsta. Þegar ég var búin að læra á handþurrkurnar birtust alltaf nýjar og nýjar græjur á þeim næsta. Verst voru sjálfsturtandi klósettin, þá gjörsamlega þyrlaðist ég upp af dollunni með tilheyrandi hljóðum. ---Leið svo þessi ferð, en ég beið á flugvellinum eftir næsta kór og þóttist þá fær um allt, og voru klósett og orgel þar meðtalin. Önnur yfirreið hófst og nú gat ég miðlað af reynslunni. Byrjum á Markúsarkirkjunni. Þar kunni ég sko á orgelið. Nú brá svo við að kórinn stóð á gólfi guðsmannanna 40 metrum neðar, og ekki einu sinni í sjónlínu. Lítill hátalari var í orgelinu þar sem ég heyrði óm, en hafði hjálparmann sem sá niður og benti mér til og frá svo að allt gengi upp. Í þessari seinni yfirreið gekk mér akkúrat ekkert að kenna fólkinu á téð klósett og vaska, því aldrei var þetta eins. Mér varð allri lokið og tók þessu eins og hverju öðru hundsbiti. Á einum stað stuttu fyrir tónleika spurði ég "vörðinn" hvar klósettið væri: Konan hans kom og leiddi mig upp og niður margar margar tröppur og endaði úti á götu. Þar gengum við góðan spöl og ég skyldi konuna alls ekki og var farin að efast um tilurð ferðarinnar. Loksins komum við á slökkvistöðina og mér bent á klósett. Þegar inn var komið blasti við mér hola í gólfið.....Kommmon, ég þekki holur, en ég var í síðum konsertkjól með mínar hækjur og stóð bara þarna eins og þvara. Beið smástund, kom síðan út, brosti breitt og þakkaði fyrir mig.--- Ópissuð --Ég er ekki viss um að ég myndi þiggja konsertferð til staða þar sem klósettmenningin er á erfiðara plani en þessi á Ítalíu. Svona er ég mikil "dama" eða kannski bara gunga.---Lífið á Hólabrautinni gengur sinn vanagang við leik og störf, aðallega þó störf. Þar til næst bið ég ykkur að ruglast ekki á smokkasjálfsala og lofthandþurrku á almenningssalernum!

miðvikudagur, 11. mars 2009

Lygalaupur?

Ég kann ekki að ljúga, og ég kann ekki við þegar aðrir ljúga. Það er búið að ljúga svo oft upp á síðkastið að mér eiginlega blöskrar, og menn hafa virkilega haldið að það kæmist ekki upp um þá. Þegar ég var að alast upp var mér sagt að "upp komast svik um síðir", og betra væri að segja alltaf satt hversu erfitt sem það væri. Í húsinu sem ég ólst upp í bjó kona sem var voða leiðinleg að mati okkar krakkana. Hún hafði allt á hornum sér. Einu sinni var í heimsókn hjá henni frú sem átti hvíta háhælaða skó. --Þeir voru skildir eftir á dyramottunni.-- Ég og önnur til sáum okkar sæng uppreidda, tókum annan skóinn og grófum hann í sandkassanum. Héldum svo okkar striki við að leika, en blístruðum hástöfum af spenningi. Allt fór á hvolf og við kallaðar á teppið hjá mömmu. Við harðneituðum auðvitað, en ég öllu minna en vinkonan, og ég blístraði af enn meiri ákafa. (nýbúin að læra þá iðju) Mömmu datt það snjallræði í hug að bjóða okkur túkall ef við vildum vera svo vænar að hjálpa til við leitina að skónum. Í stuttu máli fann ég skóinn strax, augun og blístrið kom upp um mig. Það sem meira var að mamma stóð við orð sín með túkallinn. Hún hafði heitið fundarlaunum, og loforð er loforð. Svona gerast kaupin á eyrinni í dag víst ekki. Menn halda áfram að ljúga og fá marga túkalla fyrir. En ég segi og skrifa: þetta borgar sig ekki. ---Eins og lesendur vita sem kíkja hér inn fórum við bestimann í leikhús þjóðarinnar um miðjan febrúar. Eftir að við komum heim fundum við okkur knúin til að þakka fyrir yndislega kvöldstund, og það gerðum við í smá bréfkorni til aðstandenda sýningarinnar. Á dögunum fengum við svo símtal frá einum leikaranna þar sem hann þakkaði fyrir þakkarbréfið! Þá varð ég hissa, en þótti vitanlega vænt um símtalið. Skyldi vera að við séum frekar reiðubúin til að kvarta og rakka niður frekar en að þakka fyrir það sem vel er gert? Það hlýtur bara að vera.--- Síðan síðast hefur tíminn flogið sem endranær. Nú er vorið í skólanum niðurneglt, lagalisti kóranna tilbúinn, og undirleikur frúarinnar að verða nokkuð ljós. Nokkrir langir laugardagar eru eftir og tónleikahrinan byrjar í apríl. Rósirnar í skálanum klipptar og eru farnar að segja halló. Bíð bara eftir þokkalegum degi til að þrífa allt hátt og lágt og bjóða þær velkomnar til leiks enn og aftur. Mig langar svo að endingu láta ykkur vita af því að ég er bráðum að fara í lítið blátt hús! Pössum okkur svo á lygalaupunum. Þar til næst.

þriðjudagur, 3. mars 2009

Og lífið gengur sinn gang.

Stórbloggarinn ég er sest niður og veit varla hvað á að skrifa. Ekki get ég endalaust talað um vinnuna mína, en það er nóg af henni þessa dagana. Veit það eitt að ég vildi ekki stunda mína vinnu með stórt heimili og þakka Guði fyrir stuttar vegalengdir. Er að átta mig á að í raun hef ég ekkert að segja nema eitthvað sem tengist tónlist. Nenni ekki að tjá mig um landsmálin -- skil þau ekki og nenni ekki að horfa á tíufréttir eftir góðar söngæfingar. Finnst mér þá dagurinn jafnvel ónýtur ef ég læt glepjast. Svona sting ég hausnum í sandinn og held áfram á mínum hraða. Tala við dóttluna og hennar snúða áður en ég skríð í rúmið og er það best. Ég get næstum snert þau í litla bláa húsinu í gegnum skybið, og reglulega sýni ég þeim útskriftina af farseðlum okkar bestamanns vestur! Þannig tel ég niður. Tíminn þangað til líður hratt, svo mikið veit ég.--- Um næstu helgi verður hin árlega norðurljósa-blús-hátíð haldin á Höfn og kennir þar margra grasa. Mugison feðgar spila og elda ofan í þá sem vilja og það verður blúsað um allan bæ af allskyns blússpekúlöntum. Ég er ekki frá því að blúsinn sitji enn í eyrunum á mér síðan í fyrra, og læt það kannski bara duga. Varla nenni ég á tónleika með tappa í eyrunum.-- Síðan síðast hefur lífið semsagt gengið sinn vanagang með gleði og sorg og tek ég þátt í því öllu. Þegar gleði ríkir í litla bænum mínum taka allir þátt í því og einnig þegar sorgin drepur á dyr. Það er það sem gerir lítið samfélag að góðu samfélagi. Þar til næst bið ég ykkur að fara varlega.

þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Af tækni og fegurð!

Kærar þakkir fyrir fallegar kveðjur til bestemann. Dagurinn var yndislegur og kom strákurinn bara nokkuð vel undan tugunum á undan. ---Sómapiltur---.Dagurinn byrjaði nánast um miðja nótt með miklum karlakórssöng fyrir utan svefnherbergisgluggann. Þar stóðu félagarnir hrollkaldir með Sveina káta á vörunum og stóran pappakassa af morgunmat. Dagurinn varð svo eftir því. ---Eitt er það sem við bestemann eigum í fórum okkar og þykir undurvænt um, en það eru tugir af 78 snúninga plötum með öllu mögulegu og ómögulegu á. Sigurður Skagfield með Hærra minn Guð til þín er td. eitthvað sem við verðum reglulega að hlusta á, ásamt áramótabragnum hans Brynjólfs Jóhannessonar leikara. Í þessu safni okkar eru líka perlur sem ekki eru til á nótum en ég vil gjarna nota. Þá var að finna upp tækni til að taka upp af þessum plötum svo hægt væri að útsetja. Marga hringi fórum við, fónninn er gamall og "plug" ekki til í þessa fornaldargræju. Hvað gerðu Danir þá? Náðum í eldgamalt upptökutæki með "utanborðsmike", stilltum upp fyrir framan surgandi 78 snúningana og hipp hurrey, það virkaði og kvartettinn er að verða búinn að læra eina perluna. Ég er enn að hlæja að aðförunum. Ipod, tölvur og nútímadrasl komu semsagt ekki að neinu gagni í þessu tilviki. --- Í Reykjavík á dögunum þurfti ég að endurnýja pínulitla og mjóa augnpensilinn minn og fannst nú ekki mikið til koma og fór í snyrtivöruverslun. Þar tók á móti mér undurfalleg stúlka með mikil svört augnalok og rauðar varir. Henni var sko treystandi að selja mér téðan pensil. Hún útlistaði fyrir mér gæði gripsins og úr hverju hann væri. Mér var nokk sama, vantaði pensilinn svo ég gæti talist boðleg á Hart í bak um kvöldið. Innstimplaður í kassann sagði daman fallega: þetta gera 3.800 hundruð krónur. Jawell, eins og maðurinn sagði, því mér vafðist tunga um tönn. Það versta er að ég keypti helv....! Nú spyr ég ykkur dömur þarna úti. Hvað kostar að fara berstrípaður í framan í snyrtivörubúð og vill verða fallegur? Þá er ég að meina allt...krem til allra þarfa, burstaræfla, (sem ég hefði frekar átt að kaupa í Pennanum) næturolíur og allsherjar makeup? Bara forvitni! Kannski snýst málið bara um tæknilega fegurð. Þar til næst sendi ég góða strauma.

sunnudagur, 15. febrúar 2009

Ég lagði land undir fót...

Eða þannig, er á fjórum tæknilega séð og ofan í kaupið var farið fljúgandi. Til Reykjavíkur höfum við bestimann ekki komið í rúma 6 mánuði. Núna rötuðum við um allt því lítið hefur farið fyrir mannvirkja/gatnagerð á þessum tíma. Tilefnið: jú, minn bestimann á feiknarfínt afmæli bráðlega og því var lagt í stórferðalag! Sáum Hart í bak, og erum enn uppnumin. Sennilega hefur Jökull verið á forspár, svo vel eldist inntak sýningarinnar. Mikið vildi ég að Davíð nokkur gæti staðið upp og sagt: Ég skulda Guði ekki neitt, en ég skulda þjóðinni skip.--- Mjög sterkt.--- Þar sem ég þvoði nýju fínu píanógleraugun mín (auðvitað óvart) á 60 gráðum þurfti ég að versla ný, og það tókst. Eitthvert búðarráp reyndi ég en hafði lítið uppúr krafsinu nema slatta af SALTKJÖTI og buff á snúðana mína í Ameríku! Jájá, ég bar saltkjöt með mér heim! Hittum yndislegt fólk og fórum á fimmta þorrablótið á yfirstandandi Þorra, og er ég því gjörsamlega útpunguð það sem eftir lifir árs. Að fara á þorrablót brottfluttra Hornfirðinga var mikil skemmtun, eitt allsherjar ættarmót þar sem fólk stendur saman. Náði líka að hitta góðan vin sem útsetti lag fyrir kvartettinn minn og hlakka ég til að byrja að vinna það í vikunni. Síðasta vika var mikil músík vika, og sú næsta stefnir í annað eins ásamt saltkjötsáti og afmælissöng. Þar til næst bið ég ykkur vel að lifa.

sunnudagur, 8. febrúar 2009

vort daglegt raus.

Nú er langt um liðið síðan síðast, en dagarnir æða áfram. Eitt er ofarlega í huganum akkúrat nún: Ef ég fengi uppsagnarbréf frá mínum yfirmanni yrði ég sennilega fljót að taka pokann minn. Það er einhver víðáttuauðn sem ríkir hjá þeim sem sitja sem fastast þótt löglegt sé, en siðlaust engu að síður. Það verður því örugglega mikil músík í fyrramálið fyrir utan stóru bygginguna í hjarta Reykjavíkur. Í hjarta litla bæjarins míns ríkir þó ró og friður og mikið er byggt. Risasundlaugin er að taka á sig endanlega mynd, og í sannleika sagt finnst mér þetta mannvirki ekki eiga heima hérna! --Þarf greinilega bara að venjast öllum þessum gulu og bláu rennibrautum sem teygja sig til himins. En hvað um það, landinn þarf að baða sig og þá skal byggja það besta.-- Nú eru farmiðarnir vestur um haf komnir ofan í skúffu og ég byrjuð að telja niður. Það geri ég á mjög auðveldan hátt. Rósa frænka hennar dóttlu minnar á bara eftir að kíkja í bláa húsið 3 sinnum! Varð gáttuð yfir miðaverðinu. Það er það sama og síðast þegar við flugum út. Fyrir okkur tvö að fljúga til Rvík. og heim aftur borgum við kr. 44 þúsund, og er það innan við klukkutíma flug. Hver skilur svona verðlagningu?--- Núna um miðjan mánuð ætluðum við ásamt vinahjónum að fara í afmælisferð "strákanna" okkar til Tenerife, en sú ferð var slegin út af borðinu af ferðaskrifstofunni.Eftir að hafa safnað í mörg ár í afmælisferð var þetta vitanlega dálítið fúlt, en við fengum endurgreitt og höldum bara áfram að safna. Þetta riðlaði þó áætlun okkar allra, en er náttúrulega bara lúxusvandamál sem leysist síðar. Kannski bara þegar ég verð sextug. Kannski læt ég drauminn rætast og fer í hvíkalkað hús fyrir sunnan þar sem ég sit og horfi út á hafið með laptoppinn á heilum hnjám og skrifa endurminningarnar. Þar á meðal minninguna þegar ég og annar ormur í sveit ætluðum að moka okkur í gegnum gamla harða fjóshauginn. Sama hvað við mokuðum mikið þá hrundi allt yfir okkur. Nú, eða þegar við stálum hestunum og allt komst upp. Jú svei mér þá, ég fer suður á bóginn þegar ég verð stór. Þar til næst sendi ég hlýjar yfir.

föstudagur, 30. janúar 2009

Úllen dúllen doff.

Ekki verri titill en hver annar þegar maður æðir úr einu í annað. Nú er enn ein helgin framundan og daginn farið að lengja. Eins og lesendur Ameríkufarans hafa séð eru liðin 4 ár síðan hann flutti á vit nýrra ævintýra. Margan erfiðan daginn hef ég lifað á minni ævi, en brottfarardagur dótturinnar er með þeim erfiðari sem ég hef upplifað. Þegar hún hvarf upp með rennistiganum með litla Eyjólf í poka á maganum varð mér allri lokið. Á dögunum var ég spurð að því hvort hún væri ekkert á heimleið, og þá til frambúðar. Svar mitt var nei: ég væri bara glöð yfir að hún væri ekki á heimleið til langdvalar! Þetta þótti skrítið svar frá móðurinni. Ef svo væri myndi ég missa sjónar á góðum tengdasyni, og strákarnir yrðu af góðum föður. Það er mér mikilvægt að litlu fjölskyldunni líði vel, og litla bláa húsið er þeirra staður. Nú erum við mæðgur farnar að telja niður því á morgun verður keyptur farmiði vestur og þá líður tíminn svo hratt. Hreint eins og þessi fjögur ár sem liðin eru frá flutningi þeirra. Hvert árin fóru sé ég í Eyjólfi og Natta og það er góð tilfinning. ---TR. er næsta mál á yfirreiðinni. Það er meiri asna-stofnunin á margan hátt. Ég fékk loksins í dag endanlegt bréf, svar við 5 bréfum frá mér! Þeirra voru mistökin, ég þarf að standa mína plikt, en TR. segir "sorry" með semingi. ---Um síðustu helgi fór ég á tvö þorrablót. Annað var rólegra en hitt og hentar mér betur, en bæði þrælgóð. Það er mikil menning sem felst í svona skemmtun á stað sem Höfn er. Á "aðalblótinu" eru um 30 hornfirðingar sem sjá um skemmtunina og erum við rík af hæfileikafólki. Annállinn rann í gegn án þess að meiða nokkurn og alveg bráðfyndinn. Heimahljómsveitir héldu svo uppi fjörinu á báðum blótum, og verður einnig svo annaðkvöld. Þá er þriðja blótið á svæðinu, svo Hornfirðingar ættu að vera vel súrsaðir og útpungaðir fram að næsta Þorra. Þessar samkundur minna mig á yndislega upplifun þegar ég var barn í sveit á Vatnsnesi. Þann 17. júní var haldin skemmtun á Hvammstanga sem kölluð var Jósefínu-hátíðin. Formaður kvenfélagsins hét Jósefína. Svo hætti hún sem formaður, en skemmtunin hélt velli og varð að Lárugleði, í höfuðið á nýjum formanni! Þessar menningar- Þorra og bæjarhátíðir eiga að halda velli, þær þjappa fólki saman og veita mikla gleði. Ekki veitir af. Lífið hér er gott og ætla ég að senda góða strauma út um allt þar til næst.

sunnudagur, 18. janúar 2009

TR = KLÚÐUR.

Það þarf töluvert til að gera mig reiða, en nú er ég reið og ætla að beina henni beint til lesenda. Ekki að þeim, nota bene. Samkvæmt læknisfræðilegri greiningu er ég 100% öryrki, en ég get sem betur fer unnið og skilað mínu til samfélagsins. Tryggingastofnun Ríkisins þarf því ekki að borga mér laun, ég vinn fyrir þeim sjálf, en bensínstyrk fæ ég greiddan mánaðarlega frá TR. Kr. 6.ooo. Þá er náttúrulega búið að taka skattinn. Gott mál og ekki mikið reikningsdæmi. Svona hefur þetta verið í áraraðir, og engin launabreyting er hjá mér umfram aðra í hinu "venjulega" launaumhverfi. Fyrir ári síðan fékk ég bréf frá TR. þar sem sagði að ég fyrir misreikning þeirra skuldaði 68.000 krónur. Ég varð æf og eftir mikið japl jaml og fuður fengust þeir til að hætta að greiða mér bensínstyrk þar til skuldin væri greidd, en það gekk ekki átakalaust fyrir sig. Fyrr í þessari viku kom svo annað bréf: Nú skulda ég kr. 29.000. Þá gekk yfir mig og sendi þessum reikningshausum tölvupóst þar sem ég krafðist skýringa. Daginn eftir kom staðlað bréf þar sem sagði að þetta væri skuld síðan 2005! Ekkert meir. Þá lagðist ég aftur í skriftir, og krafðist skýringa.....hvað var ég að borga í fyrra.....hver er ekki að vinna vinnuna sína? Þarf náttúrulega ekki að taka það fram að ég hef ekkert svar fengið, og mun sennilega ekki fá því þeir hjá TR kunna bara að senda rukkanir og stöðluð svör. Ég er jafndauð fyrir 29.000 krónurnar, en ég ætla ekki að borga þegjandi og hljóðalaust.(tek það fram að allir mínir pappírar eru í lagi) Ef ég skulda einhverjum vil ég vita af hverju, ef TR kann ekki að reikna þá er það ekki mitt mál. Það versta er að svona stofnun vinnur alltaf, og ég veit að svona rukkun barst ekki eingöngu til mín. Fari þeir og veri ásamt fleirum sem kunna ekki að vinna vinnuna sína. Svo mikið er víst að ég héldi ekki minni vinnu með svona slugsaragang. ---En ég er ekki séra Jón.--- Jæja, þá er ég búin að pústa, en þrátt fyrir það er ég ennþá örg, og ekki skánaði ergelsið við að horfa á fréttirnar í kvöld. Þar heyrði ég að ALLIR vissu um hrunið í bankakerfinu, og það fyrir löngu. Ég ætla að nota ljótt orð sem hefði verið bannað í mínum uppvexti: skítapakk. Þar hafið þið það kæru bloggvinir, ég er ekki alltaf eins kurteis og ég "lít" út fyrir að vera. Þar til næst.

sunnudagur, 11. janúar 2009

Úr grárri forneskju?

Ég er sennilega afar gömul og fastheldin. Fastheldin á það sem ég þekki og kann en er smeyk að breyta út af venjunni. Af hverju að skipta út einhverju sem er fyllilega boðlegt, og af hverju að hlaupa eftir öllu sem í boði er? Ekki ætla ég að skipta út bestemann þótt hann sé með grátt hár! Einu sinni voru fótanuddtæki mjög í tísku og allir áttu slíkt tæki. Þegar ég sá kynningu fyrir nokkrum árum á nuddpottum flissaði ég eins og smástelpa. Þar var komið risastórt (fóta)nuddtæki sem allir urðu að eignast. Ég barðist lengi við nota greiðslukort og farsíma, ég tala nú ekki um tölvu. Bestemann vissi sem var að það þurfti smákúnst við að koma mér á bragðið. Honum tókst það og ég get ekki hugsað mér að vera tölvulaus, en hitt er mér nokk sama um. Kann þó takmarkað að nýta mér tölvuna, en það sem ég kann dugir mér.--Allavega í bili---. Fésbókin er nýjasta dæmið um tileinkun okkar duglegu þjóðar að gleypa. Ég veit eiginlega ekki um hvað málið snýst. Eitt veit ég: ég á fullt af vinum sem mér þykir óendanlega vænt um. Þarf semsagt ekki á bókinni góðu að halda enn sem komið er. En í dag las ég grein um eina hefðarkonu rúmlega áttræða sem heldur úti samskiptum á fésbókinni, með myndum og alles! Halló....ég á ekki einu sinni stafræna myndavél. Ég tek hattinn ofan fyrir þessari góðu frú og heiti því að þegar ég verð áttræð skal ég geta þetta. Svei mér þá. Margir hafa sent mér póst og boðið mér að vera vinur á fésbókinni, en ég guggna trekk í trekk. Hef sennilega alveg nóg með að skrifa blogg endrum og sinnum um þankaganga konu í nútímatæknifjötrum! Verum líka vinir í bloggheimum, þar til næst.

sunnudagur, 4. janúar 2009

Nú árið er liðið...

Já það er liðið og kemur ekki til baka. Ég óska öllum sem hingað koma gleðilegs árs og friðar með kærri þökk fyrir liðið ár. Ekki ætla ég að bæta um betur við upprifjun ársins 2008, en þrátt fyrir óreglu og óáran í vetrarbyrjun leið árið sem að mér sneri nokkuð vel. Byrjaði að vísu með látum þar sem ég bókstaflega fauk milli Hafnar og Reykjavíkur nokkrum sinnum að láta lappa upp á hnéð. Allt fór síðan í góðan gír og hélst þannig. Margt skemmtilegt gerðum við bestimann, og litla fólkið okkar úr bláa húsinu dvaldi hér í nokkrar vikur. Það stendur uppúr. ---Nú er jólafríið mitt á enda runnið og hef ég sjaldan ef nokkurn tímann haft það eins rólegt og gott yfir hátíðarnar. Varla farið úr þeim þverröndóttu nema af brýnni nauðsyn. Lesið amk. 10 bækur, spilað kasínu og scrabbl, og ráðið hálft annað tonn af krossgátum, eða þannig. Etið rjúpur, hangikjöt, hamborgarhrygg, ferskan lambahrygg og humar svo fátt sé nefnt. Mér hálfpartinn klígjar við þessa upptalningu. Á morgun byrjar raunveruleikinn aftur og ef ég er ekki úthvíld núna verð ég það aldrei. Ég hlakka bara til. Ég hlakka líka til að fara að skipuleggja ferð vestur um haf, (stundaskrá okkar bestimann verður grandskoðuð)hlakka til þegar daginn fer að lengja og hlakka til að fara út í hvern dag (vonandi) með bros á vör. Ég semsagt hlakka til að lifa lífinu áfram. Vonandi með hækkandi sól geta fleiri og fleiri tekið undir með mér. Þar til næst.